Við erum tilbúnir þegar markaðurinn er það

-Við getur byrjað að fjöldaframleiða efnarafalsbíla hvenær sem er og gerum það jafnskjótt og markaðurinn er tilbúinn að taka við þeim og nauðsynlegir samfélagsinnviðir eru til staðar, sagði Prof. Dr. Ulrich Hackenberg tækniforstjóri Audi við opnun bílasýningarinnar í Los Angeles. Þar staðfestir Audi að full alvara er að baki orðum tækniforstjórans með því að sýna þar bílinn A7 Sportback h-tron sem er vetnisknúinn rafbíll. Efnarafall bílsins breytir vetni í rafstraum sem síðan knýr bílinn áfram.

Bíllinn er vitanlega frumgerð en geymar hans rúma vetni til 500 kílómetra aksturs. Hann er með drifi á öllum fjórum hjólum. Sinn hvor rafmótorinn knýr fram- og afturhjól og er ekkert beint drifsamband milli þeirra heldur miðlar tölva drifkraftinum milli framhjóla og afturhjóla eftir því sem akstursaðstæður og aksturslag krefjast. Samanlagt afl rafmótoranna er 170 kW eða 231 hestafl og snúningsvægið er 540 Newtonmetrar. Aflið og vinnslan duga til þess að skutla þessum 1950 kg þunga bíl í hundraðið á 7,9 sekúndum og hámarkshraðinn er 180 km á klst. Vetniseyðslan er um eitt kíló á hverja 100 km og drægið á tankfyllingunni er 500 km í venjulegum akstri.

En til viðbótar við efnarafalinn er í bílnum 8,8 kílóWattstunda rafgeymasamstæða sem fullhlaðin bætir 50 kílómetrum við drægi bílsins. Hægt er að hlaða geyminn með því að stinga í samband við venjulega heimilisinnstungu. En í akstri endurnýtir hann hemlunarorkuna og hleður henni inn á geymana sem rafstraumi.