Vilja ekki Ameríkubílana

Sala á bandarískum bílum í Noregi er á fallanda fæti. Á nýliðnu ári, sem var mjög gott söluár nýrra bíla, hélt sala á bandarískum bílum áfram að dragast saman og svo virðist sem bandarísku bílamerkin séu hreinlega á útleið úr norska konungsríkinu eins og mörgum fleiri Evrópuríkjum þrátt fyrir talsvert markaðsstarf undanfarin ár, ekki síst af hálfu General Motors.

Þannig seldist ekki einn einasti nýr Cadillac og ekki einn einasti Dodge í Noregi á síðasta ári og reyndar ekki einn einasti Bentley heldur (sem er breskur en í þýskri eigu). Árið áður (2010) seldust 72 Dodge bílar, einn Bentley og þrír Cadillac bílar. Svipaða sögu er að segja af Chevrolet frá Bandaríkjunum.

Meginástæða þessa er augljóslega þær skattaálögur sem lagðar eru í nýja bíla í Noregi. Því stærri, þyngri og öflugri sem bílar eru, þeim mun þyngri verða skattarnir og bandarísku bílarnir eru enn stórir og þungir samanborið við evrópska og asíska bíla. Norska gjaldakerfið og gjaldakerfi margra annarra Evrópulanda útiloka hreinlega slíka bíla. Þeir verða einfaldlega allt allt of dýrir.

En það eru reyndar fleiri bílar sem norskir bílakaupendur taka stóran sveig framhjá þegar þeir kaupa nýjan bíl og þeir eru sannarlega ekki allir meðal þyngstu og dýrustu bíla. Þannig seldust sárafáir bílar árið 2011 af gerðunum Isuzu, Lancia (dótturmerki Fiat), Dacia frá Rúmeníu (dótturmerki Renault) og Tata frá Indlandi. Allt eru þetta ódýrir bílar og sérstaklega þó Dacia og Tata, en það dugði greinilega ekki til þess að Norðmenn vildu kaupa þá.

Öðru máli gegndi um tegundirnar Lotus, Morgan og Ferrari. Kannanir sýna að margir Norðmenn hefðu viljað kaupa bíla af þessum tegundum en höfðu bara ekki efni á þeim. En það voru ekki allir Norðmenn blankir í fyrra því að ellefu manns keyptu sér nýjan Aston Martin. 

En síðasta ár var mikið bílasöluár í Noregi í heild. Alls seldust 138.345 nýir fólksbílar sem er 8,3 prósenta aukning miðað við árið á undan. Þá seldust 35.512 sendi- og vörubílar, stórir og smáir eða 22,3 pósentum fleiri en árið á undan. Flestir nýju fólksbílarnir eru í sparneytnari og mengunarminni kantinum