Vilji vegatollamanna tekinn að bila

Með viðtali sem Sigurður Bogi Sævarsson blaðamaður náði við Ögmund Jónasson innanríkisráðherra í gær og birtist á mbl.is urðu nokkur straumhvörf í tollamúrs- og vegtollamálinu. Ráðherra innanríkis- og þar með samgöngumála lýsti því þar yfir, gagnstætt því sem Kristján Möller fyrirrennari hans hefur staðfastlega haldið fram, að engin ákvörðun um vegtatollmúrinn og vegatollana hafi verið tekin.

Nú á föstudagsmorgni hafa orðið önnur straumhvörf og ekki ómerkari –  þau að Mörður Árnason, eini fulltrúi höfuðborgarbúa í samgöngunefnd alþingis (og sá fyrsti um mjög langa tíð), og flokksbróðir Kristjáns Möller stígur fram og segir skýrt og skorinort að botninn sé dottinn úr vegatollahugmyndinni.

Sveitarstjórnir á Reykjanesi, á Vesturlandi og í Árnessýslu hafa mótmælt fyrirhuguðum vegatollum inn á og út af höfuðborgarsvæðinu. Ekkert hefur hins vegar heyrst um málið frá stjórnum og stjórnendum Reykjavíkur, Seltjarnarness, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Álftaness og Mosfellsbæjar sem vekur nokkra furðu.

Mörður Árnason  segir í fyrrnefndri frétt á fréttavef Morgunblaðsins að byrja þurfi upp á nýtt að skipuleggja stórframkvæmdir sem áður átti að fá lífeyrissjóðina með í og til stóð að fjármagna með veggjöldum. Þessar stórframkvæmdir eru sem kunnugt er við vegina út frá höfuðborgarsvæðinu og gerð Vaðlaheiðarganga.

Mörður segir að á fundi í innanríkisráðuneytinu í gær um málið hafi sveitarstjórnarmenn og þingmenn verið að mestu á einu máli um ekki gengi að efna til ójafnræðis meðal landsmanna með því að leggja á veggjöld á einu landshorni en ekki á öðrum. Jafnræðis verði að gæta.

Nú þegar klukkan er að ganga 12 á föstudegi 7. janúar hafa tæplega 40 þúsund manns undirritað mótmæli gegn vegatollmúrnum um höfuðborgarsvæðið. Þessi gríðarlegi fjöldi á jafn stuttum tíma og raun ber vitni sýnir skýrt hver vilji almennings er í málinu. Undirskriftasöfnunin sem hófst sl.    mánudagseftirmiðddag mun halda áfram fáeina daga enn. Henni  lýkur á hádegi nk. þriðjudag. FÍB hvetur alla þá sem ekki hafa enn undirritað mótmæli gegn vegatollunum að gera það áður en undirskriftasöfnuninni lýkur kl 12.00 á hádegi nk. þriðjudag.

Sífellt fleiri merki eru tekin að sjást um að vilji þeirra stjórnmálamanna sem vilja taka vegina út frá höfuðborgarsvæðinu úr þjóðareign og mismuna síðan vegfarendum með vegatollainnheimtu eftir búsetu, sé tekinn að bila. En því fleiri sem staðfesta andstöðu sína við þessar fyrirætlanir, þeim mun sterkari eru skilaboðin til hinna kjörnu fulltrúa og þeim mun erfiðara verður það þeim framvegis að ganga í berhögg við vilja fólks.