Vill takmarka lífrænt eldsneyti

Martin Lidegaard ráðherra loftslags- og orkumála í dönsku ríkisstjórninni segir við Motormagasinet í Danmörku að það lífræna eldsneyti sem nú sé notað í landinu sé vita gagnslaust við að ná niður CO2 losun. Þá sé það fráleitt athæfi að framleiða eldsneyti beint úr uppskeru af ökrum, sem allt eins mætti nýta til þess að framleiða úr mat- eða fóðurvörur. Slíkt eldsneyti sem framleitt er beint úr uppskeru nefnist fyrstu kynslóðar lífeldsneyti.

Evrópuráðið hefur lagt til að 5% lífdísil eða - bensíni verði blandað í allt bílaeldsneyti en Martin Lidegaard leggur til að íblöndunin verði í mesta lagi 4%. Motormagasinet segir að ráðherrann sé alls ekki einn um þessa skoðun. Mikill meirihluti danskra þingmanna sé sama sinnis. Málið verður rætt á ráðherrafundi Evrópusambandsins nk. föstudag  en á fundinum verður væntanlega ákveðið endanlega hver íblöndunarprósentan verður og danski ráðherrann ætlar að standa fast á því að hún verði ekki hærri en 4%.

Ráðherrann segir að margt sem lýtur að lífrænu eldsneyti sé komið út í vissar öfgar. Það sé þegar búið að sýna sig að stór hluti þess fyrstu kynslóðar lífeldsneytis sem í notkun er í dag leiði til enn meiri CO2 losunar en ef notkun þess væri hreinlega sleppt. Því sé það rétta í stöðunni að einfaldlega leggja af alla notkun á fyrstu kynslóðar eldsneyti eins og plöntuolíu, að meðtöldum pálmaolíum og etanóli sem framleitt er úr sykurreyr. Þess í stað snúi menn sér í meira mæli að annarrar kynsóðar eldsneyti, eða því að nýta sorp og úrgang til eldsneytisframleiðslunnar.