Vínandablandað bensín á Íslandi

 Olíufélögin Skeljungur/Orkan/Orkan X, og að öllum líkindum N1 og Olís eru byrjuð að blanda vínanda (etanóli) saman við bensínið. Vínandanum virðist blandað út í allt bensín í allt að 5% magni og eru engar bensíndælur sérstaklega merktar eða auðkenndar á nokkurn hátt um, að frá þeim komi annaðhvort vínandablandað bensín eða þá óblandað. Olíufélögin hafa ekkert tilkynnt eða auglýst þessa íblöndun. En orðrómur hefur verið um hana sem talsmenn Skeljungs hafa nú staðfest. N1 og Olís hafa ekki svarað fyrirspurnum um málið. En íblöndunin á sér stað líka hjá þeim samkvæmt traustum heimildum. Atlantsolía hefur ekki blandað vínanda á afgreiðslutanka sína og ekkert slíkt fyrirhugað að sögn Huga Hreiðarssonar markaðsstjóra Atlantsolíu.

Hafsteinn Hafsteinsson félagsmaður í FÍB hefur spurst fyrir um það hjá öllum olíufélögunum hvort vínanda – etanóli eða metanóli væri blandað saman við bensínið. Ef svo væri, hversvegna væru afgreiðsludælur þá ekki merktar sem slíkar svo neytendur gætu ráðið því sjálfir hvort þeir keyptu vínandablandað bensín eða ekki. Spurningar Hafsteins voru þessar:

 

  • Eruð þið að setja „græn“ íblöndunarefni í bensín sbr. etanol/metanól?
  • Ef svarið er jákvætt er spurt um hlutfall íblöndunarefnis í bensínið?
  • Er boðið upp á á bensínstöðvum ykkar að velja milli íblandaðs bensíns og óblandaðs?
  • Eru dælur með íblöndunarefni sérstaklega merktar þannig að skýrt sé að úr þeim komi íblöndunarbensín?

 

Vínandablöndun í bensín er langt frá því að vera óumdeild. En hún á sér stoð í íslenskum lögum sem kveða á um stighækkandi hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis í ökutækjaeldsneyti úr 3 prósentum frá 2014 í 20 prósent árið 2020. Samkvæmt þessum lögum á hlutfallið að hækka nú um áramótin úr 3,5% í 5%. Fram að þessu hafa olíufélögin ekki blandað vínanda (endurnýjanlegu eldsneyti) í bensínið en látið nægja að ná hinu lögbundna heildarhlutfalli með því að blanda því meiri lífrænni olíu saman við dísilolíuna. Orkuinnihald vínandans m.a. rúmmál er mun minna en í bensíni. Íblöndunin er því útþynning sem hefur það í för með sér að bílarnir eyða meira. Hafsteinn segir að ekki sé hægt annað en að kalla það vörusvik að upplýsa ekki kaupendur að um íblandað bensín sé að ræða og gefa þeim engan annan kost.

Á fundi um þetta mál sem Bílgreinasambandið og FÍB stóðu að skömmu fyrir jólin 2014 eftir að alþingi hafði samþykkt íblöndunarlögin greindi Glúmur Jón Björnsson efnafræðingur og framkvæmdastjóri efnarannsóknastofunnar Fjölvers frá því að helstu afleiðingar laganna yrðu m.a. þær að innkaupsverð á bifreiðaeldsneyti mun hækka, kostnaður vaxa við flutning, geymslu og íblöndun, eldsneytisnýting í bílvélum myndi versna, hætta á gæðafrávikum í eldsneyti myndi vaxa, ríkissjóður verða af um 800 milljóna króna tekjum árið 2014 og að umhverfislegur ávinningur þessa umstangs alls væri afar óviss. Þessi spá hefur því miður gengið eftir og má áætla að ef þessi íblöndunarlög yrðu felld úr gildi eins og stjórnarþingmaðurinn Sigríður Andersen hefur lagt til, þá myndi myndast svigrúm til að lækka bensínverðið um a.m.k. þrjár krónur lítrann

Hin aukna eyðsla og hærra lítraverð er þó ekki eina vandamálið því að spíri og bensín eru óskyld efni. Spírinn leysist upp í vatni en bensínið ekki. Það þýðir að blandan verður viðkvæmari fyrir raka og geymist mun verr og skemur en hreint bensín. Það er því ekki gerlegt að flytja íblandað bensín til landsins, heldur verður að blanda spíranum út í bensínið hér á landi, sem kostar bæði umstang og fjármuni. Þar við bætist svo að íblöndunarefnin eru vegna meintrar umhverfismildi sinnar undanþegin sköttum og gjöldum sem lögð eru á eldsneyti til bíla. Þannig verður ríkissjóður af um milljarðs króna skatttekjum.

 Í svari talsmanns Skeljungs til Hafsteins Hafsteinssonar  segir m.a. þetta: ... „Skeljungur blandar ekki neinu methanoli út í sitt bensín, en við blöndum ethanoli úti í okkar bensín og erum við í öllum tilfellum undir leyfilegu hámarki sem er 5%.  Ef við blöndum bensínið meira en upp er gefið í þeim staðli sem í gildi er þá þurfum við að merkja það sérstaklega.  Skeljungur hefur ekki uppi nein áform um að auka hlutfall íblöndunarefna umfram það sem fram kemur í þeim staðli sem við vinnum eftir.“