VÍS hækkar tryggingagjöld vegna slæmrar afkomu – vill nú greiða út 5 milljarða arð

Í gær samþykkti stjórn VÍS ársreikninga félagsins fyrir 2015. Samkv. þeim skilaði reksturinn 2.076 m.kr. hagnaði samanborið við 1.240 m.kr. hagnað 2014. Stjórn lagði til að greiddur yrði arður til hluthafa upp á fimm milljarða króna. Reikningarnir og arðgreiðslutillagan verða lögð fyrir hluthafafund í mars nk.

En í nóvember sl. þrátt fyrir nokkuð ljóst væri þá að afkoma ársins yrði ágæt, þá sendi VÍS  bréf til tryggingataka sinna og boðaði umtalsverðar hækkanir iðgjalda af bifreiðatryggingum vegna þess að afkoman væri slæm.

Á stjórnarfundinum í gær var greinilega komið nýtt hljóð í strokkinn. Þá var það skyndilega orðið í fínu lagi að greiða út fimm milljarða arð.

Hið sérkennilega við þetta er að í nóvember sl. þegar ljóst mátti vera orðið að rekstrarafkoma félagsins væri ágæt barst vátryggjendum hjá VÍS bréf þess efnis að vegna slæmrar afkomu yrði að hækka tryggingaiðgjöld, þ.á.m. bifreiðatryggingaiðgjöld. Það hefur síðan verið gert. Hækkunin er mismikil eftir svæðum en allsstaðar umtalsverð.

Erfitt er að koma auga á samhengi hinnar meintu „slæmu“ afkomu í nóvember 2015, milljarða hagnaðar nú og fyrirhugaðrar fimm milljarða króna arðgreiðslu. Að vísu leitaðist forstjóri VÍS; Sigrún Ragna Ólafsdóttir við að skýra það í ræðu á stjórnarfundinum í gær. Þar greindi hún frá slæmum horfum í tryggingastarfseminni. Orðrétt sagði hún: „Þrátt fyr­ir iðgjalda­vöxt er vöxt­ur í tjónatíðni áhyggju­efni og það verður áfram áskor­un að ná ásætt­an­legri af­komu af mörg­um greina­flokk­um vá­trygg­inga....“

Samkvæmt hluthafaskrá á heimasíðu VÍS eiga tíu lífeyrissjóðir tæp 35% hlutafjár í VÍS. Af þeim á lífeyrissjóður VR stærstan hlut; 9,27 prósent. FÍB fréttir reyndu að ná tali af Ólafíu B. Rafnsdóttur formanni VR vegna þessa máls en ekki náðist í hana. Formanninum voru því send skilaboð í tölvupósti og verða svör hennar birt hér á fréttavef FÍB í sérstakri frétt jafnskjótt og þau berast.