Volkswagen á nú meirihluta í MAN

Volkswagen hefur nú eignast 55,9 prósent í þýska vörubílafyrirtækinu MAN. Fyrir átti Volkswagen sænska vörubílaframleiðandann Scania.

Ferdinand Piëch stjórnarformaður Volkswagen hefur ekki farið í launkofa með þá ætlan sína að ná algerum yfirráðum yfir MAN. En með þessu ætla menn að samkeppni milli MAN og Scania verði brátt úr sögunni. Síðan verði skapaður nýr stór evrópskur vörubílaframleiðandi með því að sameina MAN og Scania. Sjálfur hefur Piëch sagt að þannig náist sparnaður í framleiðslunni upp á meir en milljarð evra árlega.

Ferdinand Piëch er nú stjórnarformaður Volkswagen og MAN. Hann er dóttursonur gamla Ferdinants Porsche stofnandi samnefnds bílaframleiðslufyrirtækis auk þess að vera frumhöfundur gömlu Volkswagen bjöllunnar.

Ferdinand Piëch hefur heldur ekki farið dult með það að vilja fá Porsche endanlega inn undir Volkswagen regnhlífina þar sem fyrir eru auk Volkswagen, Audi, Seat, Skoda, Bugatti, Bentley o.fl merki. Markmiðið er að gera Volkswagen að stærsta bílaframleiðslufyrirtæki heims og slá Toyota úr efsta sætinu fyrir 2018.