Volkswagen-hneykslið

FÍB fylgist náið með Volkswagen-hneykslismálinu og mun aðstoða félagsmenn sína í álitamálum sem tengjast því.

Volkswagen hefur beðið alvarlegan álitshnekki eftir að upp komst að þessi annar tveggja stærstu bílaframleiðenda heims hafði komið fyrir hugbúnaði í tölvukerfi nokkurra sinna vinsælustu dísilknúnu bílgerða – búnaði sem fegraði stórlega mengunarmæliniðurstöður bílanna. Í hvaða Volkswagenbílum (Skoda og Audi einnig) og hve mörgum þeirra á Íslandi er þessi hugbúnaður og hvaða áhrif hefur það á eigendur bílanna og almenning? Það vitum við hjá FÍB ekki ennþá en munum ganga eftir svörum.

Um hvað snýst málið?

Í stuttu máli þá var komið fyrir hugbúnaði eða forrití í tölvum bílanna sem skynjar það þegar byrjað er að mengunarmæla þá. Búnaðurinn gangsetur þá hreinsibúnaðinn í útblásturskerfi bílsins sem annars er lítt eða ekki virkur í venjulegri daglegri notkun hans. Þetta þýðir að mengunarmælingin sýnir mjög fegraða mynd af losun NOx sambanda og sótagna sem eru krabbameinsvaldar. Þær mengunartölur sem svona fengust og voru skráðar í gerðarviðurkenningarskjöl bílanna eru því hrein og bein fölsun. Niðurstöður mengunarmælinga eru forsenda þess hvort og í hve miklum mæli bíllinn er skattlagður bæði við kaup og í notkun. Hver verða t.d. viðbrögð yfirvalda? Munu þau senda eigendum bílanna bakreikninga vegna þess að bílarnir hafa verið flokkaðir í gjaldaflokka fyrir miklu minna mengandi bíla? Hver verða viðbrögð innflytjanda bílanna?

Hvað hyggst FÍB gera?

FÍB hefur sent fyrirspurn til forstjóra Heklu hf; innflytjanda Volkswagen, Skoda og Audi á Íslandi um í hve mörgum bílum umræddur hugbúnaður er til staðar í VW bílum hér á landi. Vitað er að Volkswagen í Þýskalandi vinnur að því dag og nótt að kortleggja það í hvaða bílum hugbúnaðurinn er og hvar þessir bílar eru niðurkomnir nú. Fyrirtækið hefur heitið því að birta niðurstöðurnar um leið og þær liggja fyrir.

Er þetta í VW bílum á Íslandi?

Það er ekki vitað með vissu. Af hálfu innflytjanda VW á Íslandi hafa engar upplýsingar komið enn. Eina sem vitað er með vissu er að alls hafa í heiminum öllu, hafa ellefu milljón VW dísilbílar með þessum hugbúnaði verið seldir grunlausum kaupendum. Einungis hálf milljón þessara bíla eru í Bandaríkjunum. Líklegt hlýtur því að teljast að einhverjir þessara bíla séu í umferð á Íslandi, en það vitum við ekki enn. En sú dísilvélargerð sem hefur verið forrituð með umræddum hugbúnaði er líka algeng í öðrum gerðum bílum VW samsteypunnar, það er að segja Skoda og Audi.

Volkswagen í Danmörku hefur greint frá því að þar í landi séu 91 þúsund bílar sem verði innkallaðir. Af þeim fjölda eru 58 prósent Volkswagen bílar, 16 prósent eru Audi, 18 prósent Skoda og 8 prósent Seat.

Volkswagen í Svíþjóð hefur einnig tilkynnt fjöldann þar. Hann er samtals 224.746 bílar. Þar af eru Volkswagenbílarnir 104.227, Audibílar eru 57.367, Skodabílar eru 28.430, Seat: 2.162. Loks eru Volkswagen sendibíla 32.560. 

Hvað með minn bíl?

Samkv. upplýsingum frá Volkswagen í Þýskalandi hefur hugbúnaðurinn umræddi engin áhrif á aksturseiginleika bílsanna né viðhaldsþörf eða bílanatíðni. Hann hafi eingöngu verið ætlaður til að fegra niðurstöður mengunarprófana á bílunum. Enginn VW eigandi þurfi því að óttast að bíll hans með þessum hugbúnaði sé þar með haldinn galla. Svo sé alls ekki. Fólk geti því óhrætt haldið áfram að nýta bíla sína sem áður. Í Þýskalandi fara nú fram umfangsmikil mengunarpróf á VW dísilbílum á vegum margra, bæði opinberra aðila og neytendastofnana auk Volkswagen sjálfs. Þessum prófum er ætlað að staðreyna hvort og í hvaða bílum nákvæmlega hugbúnaðurinn er

Ef hugbúnaðurinn er í mínum bíl – hvað þýðir það fyrir mig?

Þegar þessarar spurningar er spurt, koma upp þrjár nýjar spurningar í framhaldinu:

  • Lækkar endursöluverð bílsins?
  • Eykst eyðslan?
  • Munu yfirvöld krefja eigendur bílanna um vangreidda skatta og gjöld af bílunum?

Enn sem komið er vitum við ekki svörin við öllum þeim spurningum sem vaknað hafa í kring um þetta mál. En FÍB mun ganga eftir þeim fyrir hönd félagsmanna sinna.

Hvað varðar hugsanlega bakreikninga til eigenda þeirra bíla sem gerðarviðurkenndir hafa verið í lægri gjaldaflokka vegna þess að mengunartölur hafa verið fegraðar, hafa íslensk tolla- og skattayfirvöld fátt sagt. Sömu yfirvöld í grannlöndum okkar hafa hins vegar gefið það út að ef í ljós kemur að bílarnir hefðu átt að lenda í hærri gjaldaflokkum sökum mengunar, verði bakreikningar sendir innflytjendum bílanna en ekki bílaeigendunum.

Allt bendir til þess að stjórn Volkswagen hyggi á fulla samvinnu um að upplýsa málin. Þýskir fréttamiðlar greina frá því að eigendur bílanna sem um ræðir eigi von á bréflegri afsökunarbeiðni með upplýsingum um viðbrögð fyrirtækisins í bráð og lengd. En þar sem rannsókn og kortlagning á framvindunni getur tekið talsverðan tíma mun ekki vera von á þessu bréfi alveg á næstunni.

Hjá FÍB er fylgst náið með málinu og lögfræðilegir og tæknilegir ráðgjafar félagsins munu aðstoða félagsmenn í þeim álitamálum sem upp kunna að koma og félagið mun gæta hagsmuna þeirra eftir megni.