Volvo ætlar að hefja smíði á eigin rafmótorum

Sænski bílaframeiðandinn Volvo hefur ákveðið að fara í 700 milljóna sænskra króna fjárfestingu og hefja smíði á eigin rafmótorum. Nýju rafmótorarnir verða smíðaðir í verksmiðju fyrirtækisins í bænum Skövde og er markmiðið að framleiðslan verði kominn í fullan gang eftir fjögur ár. Hönnun og þróun fer fram í Gautaborg og Sjanghæ í Kína.

„Framleiðslan í Skövde hefur verið hluti af sögu Volvo Car síðan fyrirtækið var stofnað árið 1927. Þegar Skövde byrjar að framleiða rafmótora verður hin sögulega aðstaða hluti af framtíð fyrirtækisins. Við eigum yfir að ráða mjög hæfum strfsmönnum í Skövde og því er eðlilegt að þeir verði hluti af spennandi framtíð okkar,“ segir í tilkynningu frá Volvo.

Þess má geta að í nýja rafbílnum Volvo, XC40 Recharge, eru rafmótorar keyptir frá undirverktakanum Valeo Siemens en á því verður breyting á næstu árum.

Sú þróun hefur verið í gangi í bílaheiminum að stórir bílaframleiðendur eru sjálfir að taka sín framleiðslu á mikilvægum íhlutum sem undirverktakar hafa annast til þessa. Markmiðið er að ná betri stjórn á allri framleiðslukeðjunni og geta þannig hagrætt bæði vélbúnaði og hugbúnaði.