Volvo frumgerðin sem varð að Citroën BX

Á sinn hátt eru bílar tískuvarningur og bílaframleiðendur er stöðugt að láta hanna nýja bíla sem sumir hverjir komast af hugmyndarstiginu á endanum og í framleiðslu. En þeir eru ærið margir hugmyndarbílarnir sem aldrei náðu svo langt. Einn þeirra er Volvo Tundra.

http://fib.is/myndir/Volvo_tundra3.jpg
Volvo Tundra. Kæligrillið er sérstaklega staðsett.
http://fib.is/myndir/Citroen-bx.jpg
Citroen BX.

Á áttunda áratuginum og í byrjun þess níunda fékk Volvo í Svíþjóð bílahönnuðina hjá Bertone á Ítalíu til að hanna sérstaka sport- og viðhafnarútgáfu af Volvo 262 línunni. Það þótti takast bærilega og í framhaldinu fékk yfirhönnuður Bertone; Marcello Gandini það verkefni að hanna nýjan millistærðar-Volvobíl frá grunni. Bíllinn sem Gandini hafði hannað var eftir bílatísku þess tíma mjög nýtískulegur. Hann var framhjóladrifinn og svo nýstárlegur í útliti að hinum íhaldssömu stjórnarmönnum og yfirstjórnendum Volvo leist ekkert á blikuna og höfnuðu honum alfarið. En Gandini lagði ekki árar í bát og eftir að hafa farið yfir listann yfir viðskiptavini Bertone lagði hann hönnun nýja bílsins fyrir fleiri framleiðendur og þremur árum síðar birtist þessi sami bíll, tilbúinn til framleiðslu sem Citroen BX.

Forsögu þessa Volvo Tundra bíls sem endaði sem Citroen BX er að rekja til áttunda áratugarins. Tímabilið 1970-1980 var erfiðleikatími fyrir bílaiðnaðinn. Olíukreppan mikla skall á og tók bandaríska bílaiðnaðinn gersamlega í bólinu. Tími stóru, öflugu og eyðslufreku bandarísku bílanna var að renna út en bandaríski bílaiðnaðurinn brást svo treglega við breyttum aðstæðum að eyðslugrannir litlir framhjóladrifnir japanskir bílar streymdu inn í Bandaríkin. Síðan hefur bandaríski bílaiðnaðurinn ekki verið sá sami.

Evrópski bílaiðnaðurinn var miklu sneggri að bregðast við breyttum tímum en sá bandaríski og hjá Volvo sáu menn þá vissulega fyrir og voru komnir í samstarf við DAF í Hollandi um framleiðslu á smábílnum Volvo 66 og millistærðarbílnum Volvo 340. Volvo hafði gengið allvel í Bandaríkjunum með Volvo 200 og 700 línurnar. Þetta voru hefðbundnir bílar að byggingarlagi og orðlagðir fyrir það að vera sérlega sterkir og öruggir.

En það vantaði eitthvað nýtt – eitthvað í líkingu við það sem Bretunum hafði tekist með hinum nýja Rover SD1. Hollensku Volvóarnir 66 og 340 voru það ekki og því fékk Bertone það verkefni að hanna nýjan bíl upp úr Volvo 340 línunni og útkoman varð svo þessi Volvo Tundra. Gallinn var bara sá að Volvo-köllunum þótti hann vera of nýtískulegur og því höfnuðu þeir honum.

Volvo Tundra var nefnilega talsvert undan sínum tíma. Hönnuðurinn Marcello Gandini var hreint ekki reynslulaus sem bílahönnuður. Aðeins 28 ára gamall hannaði hann  Lamborghini Miura sem margir telja að sé fyrsti raðframleiddi ofursportbíllinn.Fáum árum síðar hannaði Gandini svo einnig Lamborghini Countach. Vissulega átti Túndran aldrei að verða neinn ofurbíll í líkingu við þessa tvo ofursportbíla. Það var heldur aldrei meiningin að hann yrði einstaklega fagur, heldur vildi hönnuðurinn ná fram í honum einskonar abstrakt útliti með því að blanda saman ólíkum flatarmyndum. En með þessu hannaði Gandini bíl sem var alls ólíkur nokkrum öðrum Volvo fyrr og síðar. Útlitið var reyndar ólíkt útliti flestra fólksbíla þessa tímabils en átti eftir að slá í gegn síðar, fyrst með Citroen BX sem seldist í 2,4 milljónum eintaka á árunum 1982-1994. Enn í dag sést svipur með hönnun Túndrunnar í nútímabílum eins og Kia Soul og Mini Coupé.