Volvo með kerfi sem ýtir við þreyttum eða athyglisdaufum ökumönnum

http://www.fib.is/myndir/Driveralert1.jpg
Myndavél „sér“ veginn og varar ökumann við sé hann á leið útaf.

Rannsóknir sýna að langflest umferðarslys, eða allt að 90%, verða vegna mistaka ökumanna. Þessi mistök gera þeir vegna þess að þeir eru ekki með hugann við aksturinn af ýmsum ástæðum, m.a. þreytu og syfju. Volvo hefur nú komið fram með búnað - hinn fyrsta í fólksbílum - sem ætlað er að sporna við syfju og athyglisbresti ökumanna, til dæmis á löngum ökuferðum.  Búnaðurinn nefnist Driver Alert Control.

Þá hefur Volvo einnig kynnt búnað sem skynjar þegar bíllinn fer „af sjálfu sér“ mjög nærri eða yfir akreinalínu og varar ökumann við (Lane Departure Warning). Hægt verður að fá þennan búnað hvorn tveggja í einum pakka sem nefnist Driver Alert System eða viðvörunarkerfi fyrir ökumann. Kerfið verður fáanlegt í lok þessa árs í Volvo S80, V70 og XC70.http://www.fib.is/myndir/Driveralert2.jpg

Uppvakningarkerfið (Driver Alert Control) er byggt á viðamiklum rannsóknum á hegðun fólks undir stýri. Kerfið skráir hreyfingar bílsins á veginum og er hið fyrsta í heiminum sem varar þá ökumenn við sem ekki hafa allan hugann við aksturinn. Slysarannsóknir í Bandaríkjunum (rannsóknir NHTSA) sýna ennfremur að þreyta og syfja og að ökumenn sofna undir stýri eru beinlínis orsök 100 þúsund umferðarslysa í Bandaríkjunum einum. Í þessum slysum látast árlega 1.500 manns og yfir 70 þúsund manns slasast. Svipuð er raunin í Evrópu og GDV, sem er rannsóknastofnun í eigu þýskra tryggingafélaga, telur að um 35% allra dauðaslysa á þýsku hraðbrautunum sé að rekja til þreyttra og syfjaðra ökumanna.

http://www.fib.is/myndir/Driveralert3.jpgHið nýja viðvörunarkerfi Volvo er því augljóslega þarfaþing hið mesta. Því er einkum ætlað að grípa inn í aksturinn við aðstæður þar sem hætta er hvað mest af einbeintingarskorti við akstur, t.d. á beinum og sléttum vegum sem nánast geta ruggað ökumönnum í svefn. Kerfið verður virkt þegar hraðinn fer yfir 65 km á klst. og er síðan virkt þar til hraðinn fer niður fyrir 60.