Volvo og Bosch þrefa um lambda

http://www.fib.is/myndir/Lambda.jpg

Lamda er grískur bókstafur sem samsvarar bókstafnum L í latneska stafrófinu.

Nýlega sendi Volvo frá sér fréttatilkynningu um að 30 ár séu síðan Volvo innleiddi í bíla sína þrívirkan útblásturshvarfa með lambdaskynjara. Lambdaskynjarinn greinir útblásturinn og stillir gang vélarinnar þannig að hvarfinn vinni sem best og skaðleg efni í útblæstrinum verði sem allra minnst. Þessi búnaður markaði veruleg tímamót í sambandi við það að draga úr útblæstri skaðlegra efna frá bílum út í andrúmsloftið og umhverfið.
Búnaðurinn er nú í nánast öllum nýjum bensínknúnum bílum sem framleiddir eru í heiminum.

Skilja má af tilkynningu að Volvo hafi þróað lambda-skynjarann, en því hefur nú þýska fyrirtækið Bosch mótmælt kröftuglega í fréttatilkynningu og segist sjálft hafa gert það. Volvo hefur í framhaldinu dregið heldur í land og nú segir blaðafulltrúi Volvo að það sé að vísu rétt að það hafi ekki verið Volvo sem þróaði lambdaskynjarann sjálfan. Það sem Volvo gerði í þessu sambandi hafi verið það að safna saman hinum ýmsu hlutum og stilla þá þannig saman að úr yrði öflugt kerfi – svonefnt lambda kerfi sem stuðlaði að sem öflugustum og hreinustum bruna eldsneytisins og hreinsun útblástursins.

Á sama hátt mætti benda á þá staðreynd að það var ekki Volvo sem stóð í því að vefa efnið í sjálf öryggisbeltin og smíðað lásana þegar þriggja punkta öryggisbelti voru innleidd í Volvo bíla á sínum tíma. Það hafi verið fyrirtækin Vattenfall og Klippan. En Volvo hafi sett þriggja punkta beltakerfið saman í Volvo bíl og það sé mergurinn málsins.
http://www.fib.is/myndir/Lambdamotor.jpg

Lambda-kerfi er nú í flestöllum nýjum bílum.