Volvo V40 með loftpúða fyrir fótgangandi

Ný prófanalota er afstaðin hjá Euro NCAP og voru sex bílar árekstursprófaðir að þessu sinni samkvæmt nýjum og talsvert hertum reglum. Bílarnir eru Audi A3, Ford B-MAX, Isuzu D-Max, Kia Cee'd, Renault Clio og Volvo V40.

Allir þessir bílar standast kröfur samkvæmt hinum nýju reglum Euro NCAP. Fjórir þeirra hljóta fimm stjörnur og einn; Isuzu D-Max fjórar. D-Max er eini pallbíllinn í prófinu nú. Að baki stjarnanna fjögurra er mjög sannfærandi stigafjöldi fyrir öryggi fólksins í bílnum. Þessi pallbíl hefur tekið miklum framförum frá því árgerð 2008 var prófuð hjá Euro NCAP. Árangurinn nú sýnir að Isuzu hefur lært af reynslunni sett öryggið á oddinn í þessari nýju gerð D-Max.

Ekki ósvipað má segja um Ford B-MAX. Hann hlýtur fimm stjörnur og prófið sýnir að Ford hefur styrkt miðpóstinn (B-stólpann) í hliðum bílsins frá því sem áður var.

Hinn nýi Volvo V40 kemur inn með glæsibrag og hlýtur fimm stjörnur. Á bak við stjörnurnar fimm er hæsta stigatala nokkru sinni í árekstursprófum Euro NCAP. Það sem helst skilur í milli Volvósins og hinna bílanna í prófuninni er að hann er búinn sérstökum loftpúða til að verja fótgangandi og aðra „mjúka“ vegfarendur sem fyrir bílnum verða. Volvóinn er fyrstur bíla með slíkan öryggisbúnað og það sem meira er að búnaðurinn er staðalbúnaður í Volvo V40.

Hinir nýju Renault Clio, Kia Cee'd og Audi A3 eru allir fimm stjörnu bílar. Það sem einkum skilur hinar nýju kynslóðir þessara bíla frá þeim eldri er að þeir verja mjúku vegfarendurna mun betur en eldri gerðirnar gerðu. Auk þessa hafa ýmsar aðrar góðar endurbætur verið gerðar.

Michiel van Ratingen stjórnarformaður Euro NCAP segir að bætt vernd hinna fótgangandi og óvörðu vegfarenda sé ekki að ófyrirsynju því að 14 prósent dauðaslysa í umferðinni í Evrópu séu meðal fótgangandi. „ Euro NCAP hefur undanfarin þrjú ár hert kröfur til bílanna sem lýtur að vernd hinna fótgangandi. Á sama tíma hafa bílaframleiðendur gert slíkt hið sama. Sá árangur sem bílarnir hafa náð nú í þessu efni hefði verið algerlega óhugsandi fyrir einungis örfáum árum og nú hefur Volvo V40 bíllinn bókstaflega sett nýjan staðal.“