Volvo var mest selda „Premium“ bílmerkið í Rússlandi 2008

http://www.fib.is/myndir/Volvo_XC90_08.jpg
Volvo XC90 - vinsæll hjá Rússum.

Alls seldust 21.041 Volvo bílar í Rússlandi á síðasta ári. Sú gerð sem best seldist var Volvo XC90. Rúmlega þriðjungur seldra Volvobíla var af þeirri gerð. Forstjóri Volvo í Rússlandi, David Thomas segir að Volvo hafi náð forskoti á aðra framleiðendur á Rússlandsmarkaði vegna þess hve breitt úrval fjórhjóladrifinna jepplinga eða SUV bíla sé í boði hjá Volvo.

Mest eftirspurn var eftir gerðunum XC70 og XC 90. Miðað við árið 2007 jókst salan á XC70 um 90 prósent og um 17 prósent á XC90. Hinn nýi XC60 bættist svo við jepplingaflóru Volvo í Rússlandi síðla árs 2008 og seldust 190 eintök af honum. En þegar á heildina er litið varð lítilsháttar samdráttur í sölu hjá Volvo í Rússlandi miðað við árið 2007. Þá seldust alls 21.077 bílar en 36 færri 2008.

David Thomas Rússlandsforstjóri Volvo bindur miklar vonir við nýjasta jepplinginn XC60 og reiknar með að hann eigi eftir að ganga mjög vel á þessu ári. Hann segir í fréttatilkynningu frá Volvo að það sem Rússum falli best í geð við Volvo sé áherslan á öryggið og svo í öðru lagi hin skandinavíska hönnun. Í þriðja lagi hafi Rússar þá reynslu af Volvo að það séu bílar sem þoli vel hið rússneska loftslag, ekki síst hina gríðarmiklu vetrarkulda.