Volvoforstjórinn til Opel?

Erlendir fjölmiðlar greindu frá því um nýliðna helgi að Volvoforstjórinn Stefan Jacoby væri að hætta hjá Volvo til að taka við stjórn Opel/Vauxhall í Þýskalandi og Bretlandi. Blaðafulltrúi Volvo í Svíþjóð segir við sænska fjölmiðla að þetta sé flugufregn sem enginn fótur sé fyrir. Stefan Jacoby verði áfram forstjóri Volvo.

http://www.fib.is/myndir/Bo_Andersson.jpg
Bo Andersson.
http://www.fib.is/myndir/StefanJacoby.jpg
Stefan Jacoby.

Hitt er svo annað mál að framtíð Opel er óviss. Þrátt fyrir að Opel byggi ágæta og vinsæla bíla um þessar mundir hefur verið tap á rekstrinum um langt árabil. Markaðsspámenn telja að afdrif þessa gamalgróna bílamerkis geti vart orðið á annan veg en þann að verða lagt niður fyrr eða síðar. Móðurfyrirtækið GM krefst þess að Opel skili hagnaði strax, ella verði starfseminni hætt. En til að rétta kúrsinn þurfi algjöran kraftaverkamann sem ráði við að leysa vandamálunin og koma Opel á réttan kjöl. 

En auk Stefan Jacoby líta sænskir fréttaskýrendur einnig til Svíans Bo Andersson sem tók við stjórn rússneska bílafyrirtækisins GAZ í kaldakoli árið 2009. Hann sé líklegur til að rétta Opel af. Hann hefur snúið dæminu hjá GAZ algerlega við og í dag skilar GAZ ágætum hagnaði enda þótt ekki séu lengur framleiddir þar Moskvitsar, Rússajeppar. og Volgur, heldur GM bílar, Benzar, Fólksvagnar og Skódar.  En viðsnúningurinn hjá GAZ var ekki sársaukalaus því að Andersson byrjaði á því að reka helming starfsfólksins hjá GAZ, 45 þúsund manns.

Bo Andersson var starfsmaður GM fyrir ekki svo löngu. Hann var um tíma hjá Opel í Russelsheim en var síðast innkaupastjóri GM. Hann talar þýsku eins og innfæddur og þekkir innviði GM út og inn.