Vonbrigði í rafbílaprófun

FDM; systurfélag FÍB í Danmörku hefur undanfarnar vikur verið með rafbíl í prófun. Verulegt vetrarríki var í Danmörku meðan prófanirnar fóru fram, snjór og kuldar, þannig að ætla má að niðurstöður þeirra félaga okkar hjá FDM geti vel átt við hjá okkur á Íslandi. Niðurstöður eru í stuttu máli þær að rafbíllinn er fjarri því að vera jafn nýtinn á orkuna og jafn umhverfismildur og oft er haldið fram. Í vetrarveðri og vetrarfæri stenst hann ekki nýjustu bensín- og dísilbílum snúning. FDM er þeirrar skoðunar að í framtíðinni verði að gera meiri kröfur til rafbíla en þeir rísa undir nú.

Kostirnir eru þó ýmsir við rafbíla. Þeir eru hljóðlátir og gefa ekkert CO2 frá sér né öragnir. Síðustu árin hafa bæði framleiðendur og stjórnmálamenn lofsungið rafbílana og því löngu kominn tími til að taka þá til prófunar við raunverulegar aðstæður í raunverulegri daglegri notkun. Sá rafbíll sem FDM hefur nú prófað á þann hátt, eru í raun þrír bílar en þó einn og sami bíllinn með smávægilegum útlits- og tæknilegum mun. Þetta eru Mitsubishi Imiev, Peugeot iOn og Citroën C-Zero. Niðurstaðan er talsvert óvænt: Hún er sú að rafbílarnir standast ekki sambærilegum nýjum bensín- og dísilbílum snúning, eru ekki umhverfismildari og eru ekki heldur ódýrari í rekstri, amk. við þær aðstæður sem voru þegar prófunin fór fram.

„Mörg undanfarin ár eru búið að tala mikið og skrifa um rafbíla og það var því mikið tilhlökkunarefni að fá að prófa þá í daglegri notkun og komast að því hvernig þeir standa sig. Í sjálfum akstrinum reyndist bíllinn afbragðsvel en fór þó sannarlega ekki langt á rafhleðslunni í vetrarveðrinu. Þá var hann einnig miklu orkufrekari en búast mátti við, segir Søren W. Rasmussen ritstjóri tækniefnis hjá Motor; félagstímariti FDM..

FDM mældi nákvæmlega orkueyðslu bílanna meðan á prófunum stóð og uppreiknaði notaða orku bílanna við þann CO2 meðalútblástur sem orkufyrirtækin gefa upp fyrir hverja framleidda kílóWattstund af rafmagni. Þeir útreikningar sýna að í akstri jafngildir orkunotkunin því að bíllinn gefi frá sér 115 grömm á hvern ekinn kílómetra. Þetta er talsvert samanborið við t.d. Volkswagen Polo Bluemotion (bensín) og Peugeot 107 (dísil). Samhliða og sama prófun á þessum tveimur bílum leiddi í ljós að Pólóinn gaf frá sér 103 grömm á kílómetrann og Peugeot bíllinn 109 grömm. En ekki nóg með það: Orkukostnaður rafbílanna reyndist allt að 2,40 ísl. kr. hærri en bensín- og dísilbílanna sem prófaðir voru samhliða og á sama hátt. Þó skal það tekið skýrt fram að prófunin fór fram í vetrarveðri og vetrarfæri og vænta má þess að bæði drægi og orkunýting rafbílanna batni verulega í sumarveðri og sumarfæri.

Søren W. Rasmussen segir að þrátt fyrir þessar niðurstöður sé enginn vafi á því að rafbílar eigi framtíðina fyrir sér. Hafa beri í huga að hér var verið að reynsluaka fyrstu kynslóð rafbíla að vetrarlagi. Ljóst sé þó að rafbílarnir eigi nokkuð í land með að verða samkeppnishæfir á norðlægum slóðum. „Prófunin fór fram í febrúarmánuði sl. og oft gekk illa að fá góðan hita upp inni í bílunum og þótt við værum kappklæddir í hlýjan undir- og yfirfatnað og með trefla um háls, var okkur samt skítkalt,“ segir Søren W. Rasmussen.

Í prófuninni reyndist drægið á hverri rafhleðslu í vetrarkuldunum einungis 60-70 km sem er víðsfjarri þeim 170 km sem framleiðendur staðhæfa. Vissulega reyndist eyðsla bensín- og dísilbílanna líka meiri en uppgefnar eyðslutölur segja, en ekkert þó í líkingu við þetta.