Vopnaðir vegaræningjar

Evrópudeild FIA, alþjóðasamtaka bifreiðaeigendafélaga hefur sent út viðvörun til þeirra sem eru eða ætla að vera á ferð á E19 hraðbrautinni sem tengir saman helstu borgir Hollands og Belgíu og ferjuhafnirnar við Ermarsund. Viðvörunin er vegna vopnaðra ræningja sem herja á vegfarendur, einkum á suðurhluta E19 hraðbrautarinnar og aðliggjandi vegum. Viðvörunin er svohljóðandi:

„Undanfarið hafa átt sér stað margítrekuð rán og gíslatökur á og í grennd við E19 hraðbrautina sem tengir borgirnar Amsterdam, Haag, Rotterdam, Antwerpen, Ghent, Dunkirk og ferjuhafnirnar við Ermarsund. Þessi atvik hafa einkum átt sér stað á og við hraðbrautina sunnanverða. Ræningjarnir sem hlut eiga að máli í þessum atvikum hafa hótað að beita ofbeldi og ógnað fórnarlömbum sínum með vopnum; bæði hnífum og skotvopnum.

Ránin eiga sér oftast stað seint að nóttu eða í dagrenningu. Atburðarásin hefst með því að ræningjarnir stöðva bíl sinn í vegarkantinum eins og hann sé bilaður. Þeir veifa síðan aðvífandi ökutækjum eins og þeir séu að biðja um aðstoð. Síðan ræna þeir öllu fémætu af þeim sem stönsuðu og hafi þeim fundist afraksturinn ónógur hafa þeir tekið fólkið í gíslingu og farið með það að næsta hraðbanka og þvingað til að til að tæma úttektarheimildir greiðslukorta þess. Dæmi eru einnig um að þeir hafi umkringt ökumenn, sem eru einir á ferð, fyrir utan bensínstöðvar og sólarhringsverslanir við hraðbrautina og þvingað þá með vopnavaldi að næsta hraðbanka. Í nokkrum þessara ránstilfella hafa ræningjarnir verið á bílum með breskum skráningarnúmerum.“