Vörubílstjórar munu sæta sektum vegna frágangs á farmi

Frá og með 1. nóvember 2005 mun lögregla sekta þá vörubílstjóra sem ekki ganga nægjanlega vel frá farmi sínum. Þetta á við um lausan farm sem getur fokið eða fallið af vörubílspalli. Ætlast er til þess að notaðar séu yfirbreiðslur eða gerðar aðrar ráðstafanir til að koma í veg fyrir mögulegt fok eða fall af bílum.

Það er löngu tímabært að gera ráðstafanir til að tryggja öruggari frágang á farmi vörubíla.  Við hjá FÍB höfum á liðnum árum fengið allt of mörg mál til meðferðar vegna slysa og eignatjóna sem hefði mátt koma í veg fyrir með ábyrgari vinnubrögðum við frágang farms.  Flestir vörubílstjórar hafa til þess metnað og ábyrgð að ganga alltaf frá farmi með þeim hætti að ekki stafi hætta af fyrir aðra í umferðinni.  Þessir fáu sem vanrækja frágang koma óorði á alla stéttina.  Það er á ábyrgð farmflytjenda að tryggja að ekki skapist hætta af flutningi á farmi fyrir aðra vegfarendur.

FÍB fagnar þessum nýju áherslum enda eru þær til þess fallnar að auka öryggi og draga úr eignatjónum.