Vörugjaldsmismununin

Þegar sú breyting var gerð fyrir rúmum fimm árum, að undanskilja bíla í vörugjaldflokkum B, C og D greiðslu vörugjalda og veita 15-35% afslátt af vörugjöldum í hinum sex gjaldflokkunum var það hugsað sem stuðningur við starfsemi bílaleiga og ferðaþjónustuna í heild sem var ekkert ofhaldin eftir efnahagshrunið.  Einu skilyrðin sem bílaleigunum voru sett voru þau að selja ekki bílana fyrr en eftir 16 mánuði. Ef þær seldu þá innan þess tíma skyldu þær endurgreiða vörugjaldseftirgjöfina í hlutfalli við þá mánuði sem vantaði upp á mánuðina 16.  Ívilnanir þessar voru taldar myndu stuðla að lægri leigugjöldum og veitti ekki af þar sem bílaleigutaxtar þóttu mjög háir á Íslandi.

Eftir hrunið hægði mjög á bílainnflutningi og bílafloti landsmanna tók að eldast. Bílaleigur voru lengi vel nánast einu aðilarnir sem endurnýjuðu bíla sína reglulega. Um tíma voru það bílaleigur sem keyptu nánast alla þá nýju bíla sem fluttir voru til landsins. Og hlutur þeirra er enn mikill því að á fyrra helmingi þessa árs keyptu bílaleigur 56,2 prósent þeirra nýju fólks-og sendibíla sem fluttir voru inn.

Síðan vörugjaldaívilnanirnar voru veittar bílaleigunum hefur orðið hér ferðamannasprenging sem ekki sér enn fyrir endann á. Erlendir ferðamenn streyma til landsins og mikill blómatími er hjá bílaleigum og í ferðaþjónustunni almennt.  Bílaleigum hefur fjölgað mjög og eru nú 150 bílaleigur í landinu með starfsleyfi og leigja út rúmlega 18 þúsund bíla í stað rúmlega 6 þúsund um það leyti sem ívilnanirnar voru innleiddar fyrir einungis fimm árum.  En þrátt fyrir þennan mikla bata og verulega lengri ferðamannatíma en áður, hafa bílaleigutaxtarnir ekki lækkað. Þeir eru enn með þeim hæstu í heiminum og helmingi hærri en í Noregi þar sem innflutnings- og skráningargjöld á nýja bíla eru mjög há og engar undanþágur veittar frá þeim til bílaleigustarfsemi.

Í ljósi hins mikla bata í rekstri bílaleiga og gerbreyttra aðstæðna má vera ljóst að sérstakar ívilnanir til bílaleiganna eiga ekki við lengur. Þær eru meðgjöf sem almennum bílakaupendum stendur ekki til boða en eru í raun á kostnað þeirra. FÍB telur því tímabært að endurskoða vörugjaldafyrirkomulagið þannig að allir bílakaupendur sitji við sama borð. FÍB telur að meginmarkmið endurskoðunar á vörugjöldunum verði jöfnuður.  Því beri að forðast að hækka gjöldin  á bílaleigubíla upp í það sem almenningur greiðir nú, heldur verði núverandi mismunun jöfnuð út. Almenningur greiði lægri vörugjöld en nú en bílaleigurnar hærri. Þannig mun ríkissjóður ekki tapa neinu. Jöfnuður næst og eðlileg og tímabær endurnýjun bílaflota landsmanna gæti hafist.

FÍB hefur af þessu tilefni óskað eftir upplýsingum um sundurliðaðar tekjur ríkissjóðs af vörugjöldum vegna fólks- og sendibifreiða bílaleiga síðastliðin 3 ár og  eftir sundurliðun tekna ríkissjóðs af vörugjöldum fólks- og sendibifreiða til almennra nota.  Beiðnin á við um bifreiðar sem bera vörugjald samkvæmt aðalflokki, sundurliðað miðað við fjölda og verðmæti þeirra ökutækja sem falla undir mismundandi gjaldbil í samræmi við lög nr. 29/1993.

Eins og fyrirkomulagið er í dag fyrirfinnast 10 vörugjaldflokkar nýrra bíla eftir því hve miklu þeir blása frá sér af CO2 á hvern ekinn kílómetra. A-flokkur, sá lægsti, miðast við útblásturinn 0-80 grömm af CO2 og eru bílar í A flokki vörugjaldfrjálsir. Í flokki B eru bílar sem gefa frá sér 81-100 grömm. Vörugjaldið þar er 10% sem leggst á verð bílsins komnum til landsins. í flokki C eru bílar sem gefa frá sér 101-120 grömm. Á þá leggst 15%. Í flokki D er útblásturinn 121-140 grömm. Vörugjaldið þar er 20%. Bílaleigubílar í öllum þessum fyrsttöldu fjórum flokkum eru gjaldfrjálsir.

Flokkur E kemur næstur. Hann rúmar bíla með 141-160 grömm. Þar er vörugjaldið 25% (5% á bílaleigubíla). Í F-flokki er vörugjaldið 35% (10% á bílaleigubíla), í G flokki 45% (15% á bílaleigubíla), í H flokki 55% (20% á bílaleigubíla), í I flokki 60% 25% á bílaleigubíla) og J flokki 65% (30% á bílaleigubíla.