Vottuð gögn um CO2 útblástur bíla

Eftir síðustu breytingu á bifreiðagjöldum og CO2 losunin varð ráðandi þáttur í upphæð gjaldanna, hrökk margur bíleigandinn í kút þegar reikningar tóku að berast, sérstaklega þó þeir bíleigendur sem áttu bíla sem ekkert var skráð í hina opinberu bifreiðaskrá um hver CO2 losunin væri. Um þessa bíla var samin sérstök reikniregla um útblásturinn og upphæð bifreiðagjaldanna síðan ákveðin út frá niðurstöðunni.

Í ljós hefur komið að álagning gjaldanna samkvæmt reikniformúlunni fer stundum út um víðan völl í báðar áttir. Þegar marktækra upplýsinga um raunverulegan CO2 útblástur bíla hefur verið aflað frá framleiðendum og úr opinberum erlendum upplýsingabönkum hefur nefnilega komið í ljós að áætlanir hins opinbera samkvæmt reikniformúlunni góðu hafa stundum verið of háar en sannarlega líka of lágar.

Vissulega liggja tiltekin umhverfisverndarrök að baki því að innheimta þessi gjöld eftir CO2 útblæstri bílanna. En það er þá varla til of mikils mælst að ætlast til þess að þessi gjaldtaka hins opinbera sé byggð á traustum og öruggum upplýsingum sem hið opinbera hefur sjálft aflað og bókfært í bifreiðaskrá ásamt öðrum upplýsingum um bílinn. Á það skortir nokkuð.

Það er mjög gagnrýnivert að áður en farið var af stað með þessar nýju álögur þá var ekki byrjað á því að afla þessara nauðsynlegu upplýsinga – sjálfra forsendna hinnar nýju gjaldheimtu-  þar sem þær vantaði, heldur smíðuð í skyndi fyrrnefnd reikniformúla þrátt fyrir að ljóst mætti vera að upp kæmi misræmi: Sumir yrðu ofrukkaðir, aðrir vanrukkaðir því að bílvélar eru mis fullkomnar í tæknilegu tilliti.

Bifreiðaeigendum sem ekki voru sáttir við upphæð bifreiðagjaldanna var einfaldlega sjálfum gert að afla þessara upplýsinga og yfirvöldum nánast í sjálfsvald sett hvort þau tækju mark á þeim eða ekki. Kannski hafa yfirvöld alltaf gert sér góða grein fyrir því að upplýsingar sem þessar kosta. Það kostar að afla þeirra og varðveita og því þurfa þeir sem þær vantar, að greiða fyrir þær. Kannski hefur ríkið viljað spara sér þennan kostnað og velta honum einfaldlega yfir á eigendur vafabílanna. Mannlegt? Kannski. Stórmannlegt? Varla. Fyrir hvern og einn einstakan bíleiganda eru upplýsingarnar talsvert dýrar. Þær lækka hins vegar verulega ef stór aðili eins og t.d. Tollstjóri eða Umferðarstofa eða fyrirtæki semur um heilsölukaup þeirra.

Nú hefur einkafyrirtæki sem heitir Tækniþjónusta Íslands gert slíkan samning við þýska vottunar- og skoðunarfyrirtækið TŪV Nord og opnað vefsíðuna www.co2skraning.is

Þar geta bifreiðaeigendur kannað hvort bifreið viðkomandi er með skráða CO2 losun. Ef CO2 losun er ekki skráð er hægt að láta kanna hver losunin yrði og hvort borgi sig að láta breyta bifreiðagjöldunum. Sú fyrirspurn kostar aðeins 1.250 kr. með vsk. Með umsókninni þarf að fylgja mynd af gerðarplötu bílsins. Gerðarplöturnar er oftast að finna í hurðarfölsum eða annarsstaðar þar sem þær eru mjög aðgengilegar. Á gerðarplötunum koma m.a. fram allar þyngdartölur bílsins ásamt verksmiðjunúmeri. Auk þess þurfa að fylgja umsókninni upplýsingar um drif og skiptingu bílsins þ.e. hvort hann er sjálfskiptur eða handskiptur. Framdrifinn, afturhjóladrifinn eða með fjórhjóladrifi.

Þegar þessar upplýsingar hafa borist TŪV Nord berst fljótlega svar um hvort vottuð gögn liggi fyrir. Ef svo er þá er hægt að kaupa þessi vottuðu gögn sem Umferðarstofa á Íslandi síðan samþykkir. Gögnin kosta kr. 20.000 krónur með vsk. sem er talsvert minna en þessi sömu gögn myndu kosta ef einstaklingar vilja afla þeirra sjálfir, án aðstoðar samningsbundins milliliðs eins og Tækniþjónustu Íslands. Þessir peningar geta hins vegar verið fljótir að borga sig því að leiði gögnin í ljós að bifreiðagjöld hafi verið oftekin, þá endurgreiðir tollstjóri þau gjöld sem hafa verið ofreiknuð frá því nýju lögin tóku gildi.

Hér fyrir neðan er dæmi um þrjár tegundir bíla sem hafa farið í gegnum þennan feril.

 Fiat húsbíll með 2287 rúmsm dísilvél.
Bifreiðagjöld lækkuðu úr 84.460 kr. í 35.420 kr. á ári. Endurgreiðsla oftekinna gjalda varð því 49.040 kr.

 Ford Transit sendibíll með 2000 rúmsm dísilvél.
Gjöld lækkuðu úr 47.900 kr. í 32.540 kr. á ári. Endurgreiðsla 15.360 kr.

 Ssang Young Rexton jeppi með 2700rúmsm dísilvél.
Gjöld lækkuðu úr 53.420 kr. í 38.060 kr. á ári. Endurgreiðsla 15.360 kr.

Á þessum tölum sést að það getur borgað sig upp strax að láta leiðrétta bifreiðagjöldin auk þess að síðan eru greidd rétt gjöld í framtíðinni. Reynslan sýnir að dísilbílar lækka oftast meir en bensínknúnir bílar.

Loks má geta þess að Tækniþjónusta Íslands getur einnig boðið vottuð gögn sem þarf að framvísa við innflutning bíla til landsins vegna CO2 losunar sem og um bremsustaðla og annað sem framvísa þarf við innflutning svo bíllinn falli í réttan tollflokk.  Slík gögn geta sparað eigandanum verulegar fjárhæðir við innflutning á bílnum.