VTI efast um gagn af nagladekkjabanni

The image “http://www.fib.is/myndir/Nagladekk.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Rannsóknastofnunin VTI í Svíþjóð (Statens väg- och transportforskningsinstitut) hefur miklar efasemdir um gagnsemi þess að banna negld vetrardekk í borgum og bæjum. Í rúmlega mánaðar gamalli skýrslu gerir VTI alvarlegar athugasemdir við fyrirætlanir um bann við nagladekkjunum og dregur stórlega í efa fullyrðingar ýmissa, þar á meðal sænsku vegagerðarinnar og borgaryfirvalda í Stokkhólmi, um að fólki standi alvarleg heilsufarsógn af nagladekkjum. Skýrsluna er að finna á heimasíðu Auto Motor & Sport í Svíþjóð. Þegar síðan opnast smellið á VTI:s remissvar undir sjálfri fréttinni

Undanfarin ár hefur mikið verið gert úr heilsufarsvá nagladekkjanna. Þau rífi upp yfirborð vega og gatna og valdi þannig gríðarlegum viðhaldskostnaði. En sem verra er, er að þau þyrli upp svifryki sem valdi fólki heilsutjóni þegar öragnir í svifrykinu berist í lungun og þaðan í blóðrásina og valdi öndunar-, hjarta-, æðasjúkdómum og krabbameinum.

Fram hefur komið í nefndaráliti sem unnið var á vegum Umhverfisstofnunar að vegna óhollustu svifryks sé rétt að fara að dæmi ýmissa norrænna borga og banna eða takmarka notkun nagladekkja með því að skattleggja sérstaklega notkun þeirra. Hin heilsufarstengda ástæða er sú sama og sænska vegagerðin (Vägverket) hefur komist að í nýlegri rannsókn og er í stuttu máli sú að nagladekk rífi upp vegyfirborðið um 40 sinnum meir en ónegld vetrardekk. Því muni helmings samdráttur í notkun nagladekkja í Stokkhólmi minnka skaðlegt svifryk í andrúmsloftinu um 20-25%.

Sænska atvinnumálaráðuneytið fékk VTI til að meta áðurnefnda skýrslu sænsku vegagerðarinnar um meint fjárhags- og heilsutjón af völdum nagladekkja. VTI skilaði greinargerð sinni fyrir um mánuði. Helstu niðurstöður hennar eru svo ólíkar niðurstöðum vegagerðarinnar sænsku að furðu hlýtur að gegna hversu hljótt hefur verið um þær.

VTI rannsakaði hvernig slitagnir af umferð nagladekkja dreifast og komst að því að dreifingin er takmörkuð við einungis allt að 200 metra frá þeim stað þar sem agnirnar losnuðu úr vegyfirborðinu. Aukið svifryk er auk þess veðurfarstengt og einkum bundið við vorið þegar vegyfirborðið þornar. Þar til viðbótar er aukið svifryk í lofti að vorlagi þegar vegur þornar, að stærstum hluta komið annarsstaðar frá. Hlutfall þess ryks sem beinlínis er vegslit af völdum umferðar er einungis um 20% samkvæmt niðurstöðum VTI.

Þær svifryksmælingar utanhúss sem hingað til hafa verið gerðar í Svíþjóð hafa farið þannig fram að tekin eru sýni úr lofti í um 4 m hæð. VTI bendir á að til að hægt sé að taka mark á meintri heilsuvá af völdum svifryks verði líka að taka sýni innanhúss að vetrarlagi þegar fólk heldur sig að mestu innanhúss þar sem svifryk er miklu minna. Þá verði líka að taka tillit til sóts í andrúmslofti frá viðarbruna í borgunum því að mjög margir séu með eldstó eða kamínu í íbúðum og húsum sínum þar sem þeir brenni eldiviði að vetrinum. Stóran hluta af svifryki í lofti að vetrarlagi sé einmitt að rekja til eldiviðarbruna í heimahúsum.

Í skýrslu VTI er bent á svo marga óljósa þætti í þessum svifryksmálum öllum saman að niðurstaða skýrsluhöfundar er sú að einhverjar heildar-„patent“ lausnir fyrirfinnist ekki og einstakar aðgerðir í þeim anda séu í hæsta máta vafsamar, þar á meðal aðgerð eins og að banna nagladekk. Eindregið er varað við að trúa í blindni og flana út í slíkt si svona.
The image “http://www.fib.is/myndir/Naglaskattur.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Í ársbyrjun 2003 voru félagar í FÍB spurðir um sérskatt á notkun nagladekkja. Niðurstöður urðu þessar.