VW „eins lítra bíllinn“ í framleiðslu 2013

Ferdinand Piëch stjórnarformaður Volkswagen sem er mikill bílamaður, lét á sínum tíma hanna og byggja fáeinar frumgerðir lítils tveggja manna bíls sem skyldi eyða einungis einum lítra af eldsneyti á hundraðið. Sjálfur ók hann svo á einum þessara eins lítra bíla frá höfuðstöðvum VW í Wolfsburg eftir hraðbrautunum til Hamborgar á stjórnarfund Volkswagen árið 2009. Eyðslan reyndist þá 0,99 l á hundraðið þótt uppgefin eyðsla væri 1,38 l á hundraðið.

http://www.fib.is/myndir/Einslitrab.2.jpg
http://www.fib.is/myndir/Einslitrab.3.jpg
Á efri myndinni er Ferdinand Piëch á
fullri ferð á hraðbrautinni milli Wolfs-
burgar og Hamborgar. Á þeirri neðri er
sýningareintak einslítra VW bílsins frá
Frankfurt 2009.

Piëch vildi setja þennan bíl í framleiðslu og var hann m.a. sýndur á bílasýningunni í Frankfurt haustið 2009 sem hugsanlegur framleiðslubíll. Þar vakti bíllinn mikla athygli og jákvæð viðbrögð. Fyrirætlanir um að framleiða hann voru þó lagðar á hilluna í kjölfar stjórnarskipta. Hann þótti of dýr, m.a. vegna þess að koltrefjaefnin sem hann var að mestu byggður úr, voru mjög dýr á þessu tímabili. En nú er eins lítra bíllinn aftur kominn á borðið og í næstu viku sýnir VW nýja útgáfu þessa sparneytna farartækis. Hann er nú rafbíll með líþíumrafgeyma og tveggja strokka dísilrafstöð sem framleiðir straum þegar geymarnir tæmast. 

Það er vikublaðið Wirtschaftswoche sem greinir frá því að ný útgáfa eins lítra Volkswagen bílsins verði sýnd á bílasýningu í Doha, höfuðborg olíufurstadæmisins Qatar 26.-29. jan. nk.

 Sá eins lítra bíll sem Ferdinand Piëch ók frá Wolfsburg til Hamborgar 2009 var tveggja manna með sætaskipan eins og sviffluga eða Piper Cub flugvél. Meginástæða byggingarlagsins var sú að fá loftmótstöðuna sem allra allra lægsta og það var hún sannarlega – einungis 0,195 cW. Lág loftmótstaða og þyngd eru þeir lykilþættir sem mestu skipta um eyðslu bíla. Gamli eins lítra bíllinn var ekki einungis með ofurlága loftmótstöðu heldur var hann líka mjög léttur eða einungis 380 kíló tilbúinn til aksturs. Að lengd var hann 381 sm, breiddin var 120 sm og hæðin 114 sm og hámarkshraðinn var 160 km á klst.

 Þegar bílasýningin í Qatar opnar um helgina skýrist hversu nýi einslítra bíllinn lítur út og í hversu miklum mæli honum svipar til bílsins frá 2009. Miðað við þær fregnir sem af honum berast nú virðist sem Volkswagen sé full alvara með að hefja framleiðslu á bílnum 2013. Það sem styður þá kenningu er einkum þrennt: Í fyrsta lagi hækkandi eldsneytisverð, í öðru lagi stórlækkað verð á koltrefjaefnum og í þriðja lagi sú staðreynd að formúlubílahönnuðurinn heimsþekkti, Gordon Murray, hefur hannað ofursparneytinn þriggja manna bíl sem byggður er á þeirri sömu tækni og hugsun og Formúlu 1 bílar eru byggðir eftir.

Murray hefur raunar hannað allt sem viðkemur bílnum frá vöggu til grafar. Þar er meðtalið allt framleiðsluferlið, lagerhald og flutningakerfi fyrir bílinn, eyðingu hans og endurnýtingu þegar lífi hans lýkur, auk þess að hanna bílinn sjálfan. Hugsunin er sú að bíllinn verði seldur í pökkum svipað og fataskápar eða húsgögn í Ikea. Það þýðir að í flutningi tekur hver bíll upp brot þess flutningsrýmis sem hefðbundinn smábíll krefst. Murray hyggst ekki sjálfur standa fyrir framleiðslu á honum en hefur boðið ýmsum framleiðendum í Evrópu, Asíu og Ástralíu að kaupa framleiðsluleyfi. Undirvagn bíls Gordons Murray er úr ódýru glertrefjaplasti sem steypt er utan um létta röragrind. Yfirbyggingin er svo búin til úr notuðum gogsdrykkjaflöskum. Frétt um þennan merkilega bíl Gordons Murray hefur birst hér á fréttavef FÍB.

 En nú er Ferdinand Piëch aftur orðinn stjórnarformaður VW. Hann er mikill bílamaður og dóttursonur sjálfs Ferdinants Porsche sem á árunum fyrir seinna stríð hannaði Volkswagen bjölluna. Þótt Ferdinand Piëch sé nú orðinn 72 ára gamall þykir hann mjög frískur í anda og frjór í hugsun og fáir líklegri en hann að leita inn á nýjar brautir. Eins lítra bíllinn var frá upphafi og er enn mikið áhugamál hans. Með bílnum er hann að feta í fótspor afa síns sem hannaði VW bjölluna - ódýran einfaldan bíl fyrir fólkið, hinn vinnandi almenning.