VW Golf GTI í 35 ár

Á þessu ári eru 35 ár síðan fyrstu Volkswagen Golf GTI tryllitækin komu á markað. Af þessu tilefni kemur nú í júnímánuði á markað 35 ára afmælisútgáfa af Golf GTI sem nefnist Edition 35, ennþá aflmeiri en venjulegur GTI.

http://www.fib.is/myndir/VW_Golf_Mk1-GTI.jpg
http://www.fib.is/myndir/VW-GTI-35-2.jpg
Golf GTI 1976 að ofan og 35 ára afmælis-
gerðin að neðan.

Í stað 211 hestafla í hefðbundnu GTI gerðinni er 35 ára afmælisútgáfan með 235 hestöfl undir húddinu. Þá er framendinn lítillega öðruvísi og talan 35 er inngreypt í frambrettin. Talan 35 er síðan sýnileg hingað og þangað í innréttingunni eins og á sætunum, í hurðaspjöldunum og víðar. Að öðru leyti er bíllinn sá sami.

 Það var árið 1976 sem GTI útgáfan kom fyrst fram. GTI bíllinn markaði talsverð tímamót því þarna birtist í fyrsta sinn hefðbundinn og vinsæll fjölskyldubíll sem öflugur og hraðskreiður sportbíll án þess að notagildi hans sem fjölskyldubíls væri á nokkurn hátt fyrir borð borið. Auk þess var GTI tiltölulega ódýr þótt hann í aksturseiginleikum og innréttingu gæfi miklu dýrari bílum, jafnvel sportbílum, ekkert eftir.

Haldið verður upp á 35 ára afmæli Golf GTI á hátíð eigenda GT bíla við Wörthersee stöðuvatnið í Austurríki. Þarna hittast á hverju ári eigendur GTI bíla hvaðanæva úr Evrópu. Þarna verður 35 ára afmælisútgáfan og reyndar fleiri sérútgáfur sýndar í fyrsta sinn en hátíðin hefst á fimmtudaginn kemur, 12. maí og lýkur á sunnudag ef einhver skyldi vilja kíkja við.