VW og JAC í Kína hefja samvinnu um að framleiða rafbíla

Volkswagen mun byggja ódýra rafmagnsbíla í Kína í samvinnu við Jianghuai Automobile (JAC). Bílarnir verða byggðir á undirvagni JAC rafbíls sem þegar er til. Nýju bílarnir verða hvorki markaðssettir sem VW eða JAC heldur undir nýju tegundarheiti. Jochem Heizmann forstjóri Volkswagen í Kína greindi kínverskum blaðamönnum frá þessu á bílasýningunni í París alveg nýlega.

Í september undirrituðu stjórnendur VW og JAC viljayfirlýsingu um samstarf við að framleiða rafbíla. Þeir reikna með að ganga frá endanlegum samstarfssamningi fyrir lok ársins. Heizmann segir við Automotive News að sá samningur muni engin áhrif hafa á það samstarf sem Volkswagen á þegar í við tvo aðra kínverska bílaframleiðendur; SAIC Motor Corp. og China FAW Group Corp. Fyrstu nýju rafbílarnir frá VW/JAC muni koma á markað árið 2020 eða 2021.