VW Passat Variant 1,4 TSI

VW Passat í metan-útfærslu er bíll ársins 2012 á Íslandi. Dómnefndin sem velur bíl ársins á Íslandi er skipuð blaðamönnum úr BÍBB (Bandalagi íslenskra bílablaðamanna) og hlaut Passatinn flest stig af þeim 25 bílum sem tilnefndir voru.

http://www.fib.is/myndir/Robert-2.jpg


Bíllinn sem hér er til umfjöllunar var í Variant-útfærslu (skutbíll) og með hina byltingarkenndu 1,4 lítra TSI vél frá Volkswagen, sem gengur bæði fyrir metangasi og hefðbundnu bensíni. Bíllinn er glæsilegur á að líta og heldur vöðvastæltari í útliti en forveri hans. Hönnunin er laus við dramatík og Passatinn fellur því vel inn í hina almennu umferð.  Allt yfirbragð og umgengi um bílinn gefur til kynna gæði og vandvirkni.

http://www.fib.is/myndir/Robert-1.jpg


Að innan er frágangur snyrtilegur.  Lítið er um ódýr og hörð plastefni, en víða burstað ál, leður og plastefni með mjúka áferð.  Hinu hefðbundna útvarpi er skipt út fyrir stóran snertiskjá sem er einfaldur og þægilegur í notkun. Hljómtækin eru mjög góð og bjóða upp á iPod tengingu, líkt og í flestum nýjum bílum í dag. Miðstöðvarstillingar eru þar fyrir neðan á hefðbundnum stað. Sætin eru svipuð og í gamla bílnum.  Þau faðma ökumanninn vel að sér og veita mjög góðan stuðning í hliðum þökk sé þykkum og vel bólstruðum hliðarpúðum.

Uppblásanlegur mjóbakspúði er einnig í ökumannssæti, en aðeins ökumannssætið hafði rafmagnsstillingar í reynsluakstursbílnum.  Sætin eru klædd leðri og alcantara-efni á helstu álags- og slitstöðum.  Akstursstaðan er góð og auðstillanleg.  Stýrið fellur vel í lófa og auðvelt að færa það fram og aftur, upp eða niður. Aftursætin voru einstaklega vel hönnuð og þótti undirrituðum rými og þægindi meiri í aftursætum fólksvagnsins samanborið við samkeppnisbíla í sama stærðarflokki. Nóg pláss er fyrir þrjá fullorðna og þökk sé stóru farangursrými kemst farangur allra með og meira til. Mjög skemmtilegur aukahlutur var í prufubílnum þ.e. gríðarstórt og opnanlegt víðsýnis (panorama) glerþak, og með því virðist bíllinn talsvert rýmri að innan.

Hin áðurnefnda byltingarkennda 1,4 TSI vél skilar 150 hestöflum, sem er sami hestaflafjöldi og var í 2,0 FSI vél forverans, en nýja vélin skilar 240 NM af togi á meðan gamla FSI skilar einungis 200 NM.  Ástæðan fyrir gífurlegum afköstum vélarinnar er samstarf beinnar innspýtingar og tveggja forþjappa (turbocharger og supercharger).  Vegna lítils slagrýmis er hún jafnframt mjög umhverfisvæn, hvort sem keyrt er á bensíni eða metani, líkt og sést á meðfylgjandi töflu.  Auk metantanksins er 31 lítra bensíntankur, en skv. Volkswagen er hámarksdrægni á metangasinu 450 km og 430 km á bensíninu, sem tekur við þegar metangasið þrýtur.

Nýi Passatinn er fyrirmyndar akstursbíll. Þægindin eru í fyrirrúmi, en þó er fjöðrunin nægilega stíf til að halda bílnum límdum við götuna í kröppum beygjum sem og á ójöfnum vegum. Gírskiptingar eru einnig silkimjúkar. Önnur kynslóð DSG sjálfskiptingarinnar hefur 7 gíra, í stað þeirra 6 sem voru í fyrstu kynslóðinni. Hlutföllin milli lægri gíranna eru styttri, en lengri á þeim hærri. Það þýðir að bíllinn verður snarpari við t.d. framúrakstur, en lengri hlutföll hærri gíranna tryggja hagkvæmari eldsneytisneyslu.

Við akstur á möl komu aksturseiginleikar ökumanni þægilega á óvart. Til viðbótar við vel stilltan undirvagn og ágætis dekk greip skriðvörnin inn í á hárréttum tíma. Ennfremur greip framdrifni fólksvagninn betur í laust yfirborðið en allnokkrir aldrifsbílar sem seldir eru í dag.

Nýji Passatinn er frábær bíll í alla staði og vegna undanþágu frá vörugjöldum er hann á frábæru verði. Vart er hægt að fá betur búinn bíl en Passatinn fyrir peninginn í dag. Grunnverð er frá 4.290.000 kr. skv. verðlista Heklu frá apríl 2011. Bílinn sem notaður var í reynsluakstrinum er útbúinn sérstökum Highline-pakka og kostar því  4.780.000 kr. Innifalið í pakkanum eru 17“ álfelgur í stað 16“, tvískipt ,,Climatronic“ miðstöð, aðgerðastýri, leður- og alcantara-klæðning á sætum og áðurnefnt víðsýnis glerþak svo fátt eitt sé nefnt.

Að lokum ber að taka fram að VW Passat 1,4 TSI EcoFuel hlaut 138,5 stig af 150 mögulegum í vali á bíl ársins. Þar var tekið tillit til hönnunar, aksturseiginleika, öryggis, umhverfisþátta, rýmis og verðs.

Róbert Már Runólfsson