VW rúgbrauðið sextugt

http://www.fib.is/myndir/VW%20rugbraud.jpg

Nýlega var haldin mikil 60 ára afmælishátíð Volkswagen rúgbrauðsins – sendiferðabílsins sem byggður var á VW Bjöllunni.

Mikið var um dýrðir og komu eigendur hvaðanæva úr Evrópu með „rúgbrauð“ sín á hátíðina og voru alls um fimm þúsund bílar af öllum gerðum og árgerðum í borginni meðan hátíðin stóð. Og til að krydda hátíðina spilaði gamla og góða hippahljómsveitin sem brilleraði á Woodstock-hátíðinni sumarið 1967, The Who.

VW rúgbrauðið sem í Þýskalandi fékk gælunafnið Bulli er meðal þeirra bíla sem notið hafa hvað mests ástríkis eigenda sinna og velunnara nokkru sinni (ef komast má þannig að orði). Hipparnir á sjöunda áratugi síðustu aldar héldu mjög upp á rúgbrauðið og máluðu bíla sína gjarna í skærum litum, rúgbrauðið var vinnubíll iðnaðarmanna og bænda, sendibíll fyrirtækja og húsbíll ferðaglöðu fjölskyldnanna.

Volkswagen framleiðandinn í Wolfsburg tók nokkra af þeim bílum sem til sýnis eru í safni VW; Autostadt, og fór með þá á afmælishátíðina. Þá gaf að líta bíla í allskyns ástandi, bæði upprunalega, uppgerða til upprunalegs ástands og allavega breytta bíla.

Afmælishátíðin hófst með hópakstri yfir 5 þúsund rúgbrauða frá VW verksmiðjunni þar sem mörg þeirra 10 milljón rúgbrauða sem byggð hafa verið voru byggð. Ekið var í gegn um miðborg Hannover út á sýningarsvæði í útjaðri borgarinnar. Hér er að finna fjölda mynda frá hátíðinni.