Wagoner rekinn frá GM

http://www.fib.is/myndir/Rick_wagoner.jpg
Rick Wagoner. Ekki lengur forstjóri og stjórnarformaður GM.

Bandarískir fjölmiðlar greindu frá því snemma í morgun að Rick Wagoner forstjóri og stjórnarformaður General Motors sé hættur störfum eftir rúmra átta ára starf. Obama forseti og ríkisstjórn hans hafi sett það sem skilyrði fyrir frekari aðstoð við hið aðframkomna risafyrirtæki að Wagoner hætti. Sá sem við tekur heitir Fritz Henderson og hefur verið einn af framkvæmdastjórum GM. Nýr stjórnarformaður GM er Kent Kresa en hann hefur verið stjórnarmaður í Grumman Northrop flugvéla og hergagnafyrirtækinu. Nýju stjórnendurnir fá 60 viðbótardaga til að ganga frá rekstraráætlun sem lýsir því hvernig forða megi GM frá yfirvofandi gjaldþroti.

Það er í fyrramálið sem Obama forseti hugðist svara umsókn GM um viðbótarlán og aðstoð upp á 16,6 milljarða dollara til viðbótar við þá 13,4 milljarða sem fyrirtækið hefur þegar þegið frá ríkinu sér til bjargar. Brottrekstur Wagoners nú þýðir því í raun að forsetinn er búinn að gefa jákvætt svar sem hann mun staðfesta seint í kvöld eða fyrramálið. Á morgun mun forsetinn einnig kveða upp úr með það hvort og með hvaða skilyrðum Chrysler fær aðstoð. Reiknað er með að fyrirtækinu verði gefinn 30 daga viðbótarfrestur til að skýra út hvernig væntanlegt samstarf eða sameining Chryslers og Fiat er hugsað áður en 6 milljarða dollara viðbótaraðstoð verður greidd út til Chryslers.

Rick Wagoner varð forstjóri GM árið 2000 og stjórnarformaður hefur hann jafnframt verið frá 2003.  Á valdatíma hans hefur gengið á ýmsu en stefnan þó aðallega verið niður á við. Reksturinn skilaði síðast hagnaði árið 2004 eftir mikla eignasölu. Síðan hefur verið bullandi tap og nú er GM nánast gjaldþrota.

Það hefur vakið furðu margra hvernig bandaríski bílaiðnaðurinn sem á síðustu öld var sá voldugasti í heiminum, hefur reynst lítt fær að laga sig að breyttum aðstæðum og kröfum ekki síst á heimavelli. Það hefur leitt til þess að erlendir bílaframleiðendur, ekki síst japanskir, hafa náð gríðarlega sterkri stöðu í Bandaríkjunum.

Ómar Ragnarsson, sem er mikill og góður bílamaður sagðist á bloggi sínu í morgun í athugasemd við frétt um brottrekstur Wagoners ekki vera hissa. Hann hefði séð sjónvarpsviðtal við Wagoner í byrjun október sl. Ómar hittir naglann á höfuðið er hann segir:

„Maður á kannski ekki að dæma menn eftir einu sjónvarpsviðtali en miðað við viðtal við Rick Wagoner sem ég sá í bandarísku sjónvarpi í októberbyrjun síðastliðið haust kemur ekki á óvart þótt Obama-stjórnin hafi krafist þess að hann viki.

Í þessu viðtali vakti þessi maður undrun mína fyrir sjálfumgleði, hroka og vissa veruleikafirringu. Hann virtist enga grein gera sér fyrir orsökum þess hvernig þessi bílarisi, sem bar ægishjálm yfir aðra bílaframleiðendur lungann úr síðustu öld, er nú kominn að fótum fram.

Þegar honum var bent á að lítil, nánast bílskúrsfyrirtæki, virðist vera búin að leysa vandamál varðandi rafbíla og aðrar nýjungar í takt við tímann, sem risafyrirtækið virtist fyrirmunað að geta, gerði hann lítið úr því og hlakkaði yfir því að vegna smæðar sinnar andspænis bílarisanum ættu hinar athyglisverðu nýjungar sem komið hafa fram enga möguleika á að verða raunhæfar.

Á bak við mannalæti Wagoners glytti í það sem marga hefur grunað og stórfyrirtækin hafa verið vænd um, en það er hvernig þau beita stærð sinni og aðstöðu í stjórnkerfinu til að kaffæra alla þá sem gætu ógnað þeim á nokkurn hátt.

Ég var nýlega að sjá tölur úr reynsluakstri á nokkrum "ofurbílum" fyrri tíma og vakti athygli mína að 1948 módelið af Tucker var langsneggsti og hraðskreiðasti bíllinn á sínum tíma og á flesta lund langt á undan sinni samtíð.

Útsendarar stórfyrirtækjanna beittu spillingarkenndu valdi sínu til að koma Tucker á kné. Í stjórnartíð Wagoners hefur GM verið á rangri braut í sama afneitunarstílnum og Bush-stjórnin var og engan veginn í takt við tímann. Afleiðingarnar blasa nú við.“

Geta má þess að lokum að leikstjórinn Francis Ford Coppola gerði ágæta kvikmynd um Preston Tucker og bíl hans. Flest eða öll gangfær eintök Tucker-bíla eru í eigu Coppola og voru þegar síðast var vitað, geymd á vínbúgarði Coppola, Niebaum-Coppola í Napa dal í Norður Kaliforníu.