Yfirfarið bílinn áður en lagt er af stað í ferðalagið

Það er frumskilyrði að ástand ökutækis sé gott áður en lagt er af stað í ferðalag. Ef viðgerðar er þörf, þá verður að gera ráðstafanir tímalega.  Oft tekur daga eða vikur að fá tíma hjá bifreiðaverkstæði og einnig getur bið eftir varahlut tafið enn frekar.  Á ferðalögum er bíllinn oftast meira hlaðinn og vegir misgóðir þannig að álagið er meira en við daglegan akstur.  Bíleigendur geta farið yfir ástand bílsins að hluta sjálfir en hemla og annan öryggisbúnað á að láta fagmenn athuga.

Hjólbarðar
Hjólbarðar verða að vera í lagi.  Munsturdýpt má ekki vera minni en 1,6 mm.  Ef framundan er langt ferðalag er ekki óeðlilegt að miða við 2-3 mm munsturdýpt til að mæta hjólbarðasliti á ferðalaginu.
Álag og slit á hjólbörðum eykst í hlutfalli við þyngd farþega og farangurs.  Kannið loftþrýsting hjólbarða og athugið ástand varahjólbarða.  Loftþrýsting þarf að auka ef bifreiðin er mikið hlaðin, í samræmi við ábendingar í eigendahandbók.

Höggdeyfar
Höggdeyfar gegna mikilvægu hlutverki og hafa mikið að segja varðandi aksturseiginleika bifreiðarinnar.  Hægt er að framkvæma einfalda athugun á ástandi höggdeyfa.  Byrjið á einu horni bifreiðarinnar og þrýstið honum niður þannig að hann hreyfist upp og niður.  Ef bifreiðin dúar meira en einu sinni upp og einu sinni niður getur það verið vísbending um lélagan höggdeyfi.  Þegar skipt er um höggdeyfi er ráðlagt að skipta um báða á sama öxli (báða fram- eða afturhöggdeyfa).

Ljós
Ljósabúnað verður að athuga.  Ef ljósapera fer þá er ráðlagt að skipta einnig út samsvarandi peru á hinni hliðinni.  Hafðu það fyrir reglu að vera alltaf með
ljósaperur í bílnum til skiptana.

Verkfæri og varahlutir
Yfirfarið verkfærasett bifreiðarinnar.  Gott er að smyrja tjakkinn og jafnvel fleiri verkfæri.  Eftirfarandi verkfæri er ráðlagt að hafa í bílnum:  Felgulykil, skiptilykil, átaksstöng, kertalykil, skrúfjárn, stjörnuskrúfjárn, bittöng, loftþrýstimæli og vasaljós.  Auk ljósapera er gott að hafa algengustu varahluti, svo sem viftureim, kerti, öryggi, þurrkublöð, einangrunarband, olíu og frostlög.  Í bílnum á alltaf að vera viðvörunarþríhyrningur, sjúkrakassi, dráttartóg og bensínbrúsi.

Kælikerfi
Kælikerfi hreyfilsins ( vélar ) gegnir mikilvægu hlutverki og áður en haldið er af stað í ferð verður að ganga úr skugga um að nægur kælivökvi sé á kerfinu.  Ef áfyllingar er þörf er ráðlagt að blanda vatni og frostlegi í jöfnum hlutföllum saman (1/1).  Frostlög á einnig að nota á sumrin því þá ver hann kælikerfið gegn ryði.

Rafgeymir
Látið athuga hleðsluhæfi rafgeymis, t.d. hjá rafgeymaþjónustu.  Er nægilegt vatn á rafgeyminum?  Vanti á rafgeyminn þá bætið á hann eimuðu vatni.
Hreinsið póla og leiðslur með fínum sandpappír eða vírbusta.

Viftureim
Kannið ástand viftureimarinnar.  Reimin á rafalnum þarf að vera hæfilega strekkt, ekki þó meir en svo að hægt sé að sveigja hana til u.þ.b. 1 sm þar sem hún leikur laus.

Smurkerfi, kerti ofl.
Ráðlegt er að skipta um olíu á hreyfli og olíusíu áður en lagt er af stað í langferð.  Loftsíu og kerti á að skipta um í samræmi við upplýsingar í eigendahandbók bifreiðarinnar.

Þetta getur bifreiðaeigandinn gert sjálfur

 Kannað ástand hjólbarða og hjólbarðaþrýsting
 Yfirfarið ljósabúnað
 Athugað kælivökva
 Kannað ástand og stillingu viftureimar
 Athugað vantnsstöðu í rafgeymi
 Hreinsað geymasambönd
 Smurt hurðalamir o.fl.
 Margir geta skipt um olíu, olíusíu, loftsíu og kerti sjálfir
 Kannað ástand höggdeyfa

Þetta á fagmaðurinn að framkvæma

 Kanna ástand hemlabúnaðar
 Athuga tengsli (kúpplingu)
 Vélarstilla
 Athuga ástand bensínleiðsla
 Kanna stýrisbúnað
 Skipta um olíu og síur
 Kanna ástand útblásturskerfis

Þessi einföldu ráð og tveir til þrír tímar í vinnu geta sparað verulega í viðhaldi auk þess að bæta samviskuna.