Yfirvöld í Kaupmannahöfn hafa áhyggjur af aukinni mengun

Yfirvöld í Kaupmannahöfn hafa um nokkra hríð haft miklar áhyggjur af aukinni loftmengun í borginni. Nú er svo komið að yfirvöldum finnst ástandið vera orðið það alvarlegt að lagt hefur verið til að notkun nýrra dísilbifreiða verði bönnuð frá og með 1. janúar 2019.

Málið hefur fengið mikla umfjöllun hjá borgaryfirvöldum í Kaupmannahöfn eru flestir sammála um að bæta þurfi loftgæðin í borginni. Sumum borgarfulltrúum finnst nokkuð langt gengið að banna alfarið notkun dísilbifreiða í borginni eftir rúmlega ár.

Frank Jensen, borgarstjóri, segir að borgaryfirvöld verði að grípa til ráðstafana til að vinna bug á aukinni mengun. Þetta sé einn liðurinn í því og fleiri möguleikar hafa verið til skoðunar.

Svifryksmengun í Kaupmannahöfn er orðin meiri en í stórborgum Los Angeles, Barceona og Róm. Fyrir nokkrum árum var talið að um 500 manns láti lífið fyrir aldur fram í Kaupmannahöfn og nágrenni sem rekja megi til svifryksmengunar. Hjólreiðamenn, sem skipta þúsundum á götum borgarinnar, segjast margir hafa fundið fyrir aukunum óþægindum vegna aukinnar mengunar.