Vega- og samgöngurannsóknarstofnun Svíþjóðar mælir gegn heilsársdekkjum

Heilsársdekk eru umtalsvert verri en venjuleg vetrar- og sumardekk óháð yfirborði vegar. Við hálku aðstæður í vetrarfærð teljast dekkin ónothæf til aksturs á sænskum vegum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá VTI, vega- og samgöngurannsóknarstofnun Svíþjóðar, sem unnin var í samvinnu við tryggingafélagið Folksam.

Það er þægilegt, sparar tíma, fyrirhöfn og peninga að losna við dekkjaskipti vor og haust. Þessir hvatar hafa lokkað marga til kaupa á heilsársdekkjum. Sumir nýir bílar koma einnig á heilsársdekkjum.

Rannsóknin

Í rannsókninni voru 14 mismunandi heilsársdekk prófuð við hálkuaðstæður, í snjó og á auðri jörð. Dekkin voru borin saman við naglalaus vetrardekk fyrir norrænar og miðevrópskar aðstæður sem og sumardekk. Prófanir voru gerðar árið 2022 á tilraunabraut Nokian fyrir utan Ivalo í Norður-Finnlandi og á Anderstorp hraðbrautinni. Markmiðið var ekki að nefna ákveðin dekk sem sigurvegara eða tapara heldur að rannsaka eiginleika heilsársdekkja við mismunandi aðstæður.

Af þessum 14 dekkjum voru ellefu viðurkennd til notkunar á veturna með táknið fjall með snjókorni á hliðinni. Þrjú dekk voru ekki samþykkt sem vetrardekk en hægt að kaupa í Svíþjóð í gegnum netverslun.

Rannsóknin leiðir í ljós mikinn mun á hemlunarvegalengd við allar aðstæður.

Í snjó var hemlunarvegalengdin fyrir vetrarviðurkennd heilsársdekk um það bil 10–30 prósent lengri en fyrir norræn viðmiðunarvetrardekk. Meðaltalið var 15 prósent. Óviðurkennd heilsársdekk höfðu allt að 40 prósent lengri hemlunarvegalengd.

Í hálku var hemlunarvegalengdin 25–50 prósent lengri miðað við norræna viðmiðunardekkið, að meðaltali rúmlega 30 prósent. Versta heilsársdekkið var á við sumardekk og hafði 50 prósent lengri hemlunarvegalengd en norræna viðmiðunardekkið.

Í sumarfæri var hemlunarvegalengdin 5–30 prósent lengri á bæði þurru og blautu malbiki samanborið við hefðbundið sumardekk.

Ófullnægjandi öryggi

Að mati VTI eru heilsársdekk ófullnægjandi búnaður til notkunar í Svíþjóð. Ökumenn eiga að nota vetrardekk á veturna og sumardekk á sumrin. Niðurstaðan er sú að veggrip við erfiðar vetraraðstæður sé almennt of lélegt til að uppfylla kröfur um öryggi í vetrarakstri við sænskar aðstæður, segir Mattias Hjort hjá VTI sem stýrði rannsókninni.

Heilsársdekkin eru almennt ekki góð og einnig er mikill munur á hemlunarvegalengd og veggripi á milli mismunandi dekkja. Sum heilsársdekk eru sambærileg við miðevrópsk naglalaus vetrardekk en önnur líkari sumardekkjum.

Rannsóknin sýnir einnig tengsl á mill minna vegviðnáms og lélegs veggrips á ís. Minna vegviðnám á að auka sparneytni ökutækja en eykur einnig hemlunarvegalengd sem er aðför að öryggi vegfarenda.

Víða í Svíþjóð eru vetraraðstæður á vegum svipaðar og á Íslandi.

Hlekkur á skýrsluna