10 prósent svindlvéla Volkswagen hafa verið lagfærðar

Það gengur frekar hægt að uppfæra milljónir dísilvéla Volkswagen og koma þeim í löglegt lag – vélarnar sem voru forritaðar með hugbúnaði sem fegraði stórkostlega útblásturs- og mengunargildi vélanna – nema þegar bílarnir voru mengunarmældir inni á verkstæðum og skoðunarstöðvum.

Þýska umferðarstofan KBA hefur samþykkt áætlanir um slíka uppfærslu á 5,1 milljón VW, Audi, Skoda og Seatbílum, en samtals munu bílarnir vera 8,5 milljónir í Evrópu.

Af þessum 8,5 milljón bílum hafa 10 prósent verið lagfærðir með góðum árangri að sögn Manfred Bort sem hefur yfirumsjón með verkefninu af hálfu Volkswagen samsteypunnar. Þetta segir hann í samtali við Reuters. Hann segir að ætlunin sé að ljúka viðgerð á flestum þessum 8,5 milljón bílum fyrir áramót. Þeir sem útaf munu þá standa verði kláraðir 2017.