100 ára og ennþá vel ern

http://www.fib.is/myndir/Rolls-65.jpg
Rolls Royce 1965.

Öld er nú liðin frá því að fyrsti Rolls Royce Silver Ghost bíllinn, eða silfurdraugurinn eins og þýða mætti nafnið án alls hátíðleika, kom á götuna. Það var í maímánuði árið 1907 en Silver Ghost var byggður fram á árið 1927 eða í 20 ár samfleytt. Til að fagna þessum tímamótum var nýlega haldin samkoma á lóð Rolls Royce bílasmiðjunnar í Goodwood í Bretlandi og þar voru samansafnaðir 60 Silver Ghost bílar, allir í topstandi. Þúsundir áhugamanna komu til Goodwood til að skoða bílana og verksmiðjuna og að hátíð lokinni lögðu allir bílarnir 60 upp í 17 daga og 3600 kílómetra langan bíltúr um Bretland. The image “http://www.fib.is/myndir/Rollsar.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Þátttakendur í bíltúrnum komu víðs vegar að úr heiminum. Auk Bretlands komu þeir frá Bandarikjunum, Ástralíu, Nýja Sjálandi, Singapore, S. Afríku og Indlandi. Auk gömlu bílanna gaf að líta nýjar sérgerðir Rolls Royce bíla eins og t.d. svonefnd Limited Edition af Phantom Silver en einungis 25 bílar af þeirri gerð verða byggðir.

Fyrsti Silver Ghost bíllinn frá 1907 var með sex strokka vél sem var milli 40 og 50 hö. Miðað við bíla þess tíma þótti Rolls Royce Silver Ghost framúrskarandi vandaður og áreiðanlegur bíll og skapaði Rolls Royce það orðspor sem alla tíð hefur síðan af honum farið. Þetta sama ár vann Silver Ghost hvern kappaksturinn af öðrum í Bretlandi og setti meðal annars heimsmet í þolakstri með því að aka 27 sinnum nánast stanslaust leiðina London-Glasgow, alls 23.100 kílómetra.

Rolls Royce er í hugum flestra tákn fyrir það vandaðasta, þjóðlegasta og besta í breskri bílaframleiðslu. Rolls Royce er þó ekki lengur al-breskt því að fyrirtækið er nú í eigu BMW í Þýskalandi. Í verksmiðjunni í Goodwood eru þessa stundina byggðar einungis þrjár gerðir Rolls Royce bíla. Þær eru Phantom, Phantom Extended Wheelbase (lengdur milli hjóla) og Phantom Drophead Coupé. Árið 2003 voru byggðir 300 Rolls Royce bílar þegar framleiðsla hófst á fyrrnefndum gerðum. Framleiðslan hefur farið vaxandi síðan og voru 792 bílar byggðir árið 2004, 796 árið 2005 og 805 bílar á síðasta ári.