15 nýjar litlar Toyota-vélar

Toyota í Japan boðar nýja seríu lítilla bílvéla. Fyrstu tvær gerðirnar í þessari seríu eru komnar í framleiðslu en margar fleiri eru væntanlegar smám saman. Nýju vélarnar eru hannaðar og þróaðar í samvinnu við dótturfyrirtæki Toyota; Daihatsu og eru því væntanlega þriggja strokka þótt það komi ekki beinlínis fram í frétt Toyota. Sú minni er með eins lítra sprengirými en sú stærri 1,3 l. Þjöppunarhlutfall þeirra er hátt miðað við bensínvélar eða 11,5:1 í þeirri minni en 13,5:1 í þeirri stærri.

Nýja vélalínan mun birtast smám saman í fólksbílagerðum Toyota eftir því sem þær verða uppfærðar til næstu árgerðar. Þótt enn séu aðeins tvær gerðir þeirra komnar fram munu þær vera orðnar 15 á næsta ári. Þær tvær sem þegar eru komnar fram eru án forþjöppubúnaðar (túrbínu) og beinnar eldsneytisinnsprautunar. En eldsneytisnýting þeirra er með þeim hætti sem kallast Atkinson brunahringur (Atkinson Cyclus), eins og tíðkast í vélum í tvíorkubílum Toyota, eins og Prius. Með þessu fyrirkomulagi næst nefnilega mjög gott tog við tiltölulega lágan vélarsnúningshraða.

Þetta Atkinson-dæmi er í grófum dráttum það að innsogsventlarnir haldast lengur opnir en venjulegast er. Meira loft næst þannig inn í brunahólf vélarinnar, loftið og eldsneytið blandast vel saman og samanlagt verður þetta til þess að togið eða vinnslan batnar og eldsneytiseyðslan verður minni vegna þess að orkunýting vélarinnar er sögð verða betri en ella. Nýja 1,3 l vélin (sú stærri) er sögð veru 10 prósent neyslugrennri á bensínið en þær vélar sem henni er ætlað að leysa af hólmi. Þá er orkunýting hennar sögð vera 38 prósent sem er sú hæsta sem gerist í fjöldaframleiddum bílvélum.