16,4% minni sala nýrra bíla

 http://www.fib.is/myndir/Bilafloti.jpg

Nýskráningar nýrra og notaðra bíla í nýliðnum maímánuði voru 39,7 prósent færri en í maí 2007.  Nýskráningar nýrra bíla í mai voru 1.363 talsins sem er 40,7 prósent færri en á sama tíma í fyrra og nýskráningar notaðra bíla voru 172 talsins eða 29,5 prósent færri. Þetta kemur fram í samantekt Bílgreinasambandsins.

Lang flestir nýskráðra nýrra fólksbíla og jeppa í maí sl. voru af Toyota gerð eða 428. Næstflestir voru Skodabílar, 95. VW var í þriðja sæti með 75 nýskráða nýja bíla.

Af þekktum tegundum sem engan einasta nýjan bíl fengu nýskráðan í maí má nefna Alfa Romeo, Cadillac, Daihatsu, Hummer, Mini og Saab.

Þegar tímabilið janúar-maí í ár er skoðað og borið saman við sama tímabil í fyrra þá kemur í ljós að samdráttur í nýskráningum nýrra bíla í heild  er 16,4 prósent. Samdráttur hefur orðið hjá flestum tegundum, þó ekki öllum.  Í fyrra voru t.d. nýskráðir 344 Subaru bílar en í jan.-maí í ár voru þeir 353 sem er 2,6 prósenta fjölgun. 315 Nissan bílar voru nýskráðir á móti 278 í fyrra (13,3% fjölgun), 96 Opelbílar móti 85 í fyrra (12,9% fjölgun) og loks 46 Jeep móti 21 í fyrra (119% fjölgun).

Toyota er lang sterkasta bílamerkið enn sem fyrr. í jan,-maí í fyrra voru nýskráðar 1.521 Toyota fólks- og jeppabifreiðar en á sama tímabili á þessu ári 56 færri, eða 1.465 Það er fækkun um 3,7 prósent.