17,4% fjölgun nýskráninga hjá Fiat

Samkvæmt tölum ACEA – samtökum evrópskra bílaframleiðenda - yfir nýskráningar fólksbíla í Evrópu fyrstu fjóra mánuði ársins, er Fiat í verulegri uppsveiflu. Nýskráningum á Fiatbílum fjölgaði um 17,4 prósent miðað við sama tíma í fyrra. Nýskráðir voru samtals 89 þúsund Fiatbílar á tímabilinu og vantaði einungis 1.500 bíla upp á að Fiat ýtti Opel úr fimmta sætinu yfir mest seldu bíltegundirnar í álfunni.

Það sem þyngst vegur í þessari miklu aukningu hjá Fiat eru góðar móttökur sem nýju 500X gerðirnar hafa hlotið. 500X gerðirnar eru mjög líkar Fiat 500 í útliti en stærri. Ennfremur hefur bílasala aukist umtalsvert á  Ítalíu..

Í Evrópu sem heild fjölgaði nýskráningum bíla um 3,2 prósent Mest selda bíltegundin í Evrópu er enn sem áður Volkswagen en nýskráningum VW bíla fjölgaði um 8,1 prósent sem er 4,7% umfram vöxt bílamarkaðarins. Númer tvö er Renault. Ford er nr. 3, Peugeot er nr.4, Opel er nr. 5, Fiat er nr. 6, Mercedes nr. 7, Audi nr. 8, Citroen nr 9 og BMW nr. 10.

En þótt bílamarkaðurinn í Evrópu hafi stækkað það sem af er árinu njóta ekki allar tegundir góðs af því. Nýskráningum rússnesku Lada bílanna hefur  þannig fækkað um 38,2 prósent milli ára. Svipað, en þó minna hefur nýskráningum Honda bíla fækkað, eða um 24,1 prósent.