175 fornbílar á uppboði

Minnst 175 bílar sem voru í eigu hins merka Aalholm bílasafns á Lálandi, verða boðnir upp sunnudaginn 12. ágúst næstkomandi. Uppboðið fer fram á Aalholm sveitasetrinu þar sem safnið var. Fimm ár eru liðin síðan það var lýst gjaldþrota. Aalholm bílasafnið var um margra ára skeið eitt hið stærsta í Evrópu.

Aalholm bílasafnið var stofnað árið 1964 af aðalsmanninum, baróninum J. O. Raben-Levetzau á sveitarsetri hans, Aalholm Gods á Lálandi, skammt frá aðalveginum milli ferjustaðarins Rödby og Kaupmannahafnar.

http://www.fib.is/myndir/Arnott-Lea-Francis-1954.jpg
Arnott Lea Francis 1954.
http://www.fib.is/myndir/Ballot-24.jpg
Ballot 1924
http://www.fib.is/myndir/Hanomag-1926.jpg
Hanomag Kommisbrot 1924.
http://www.fib.is/myndir/Morgan1914.jpg
Morgan 1914.
http://www.fib.is/myndir/Panhard-Levassor-1908.jpg
Panhard Levassor 1908.

Hann ákvað að stofna safnið formlega og opna það almenningi í kjölfar þess að honum áskotnaðist forláta Rolls Royce Silver Ghost árgerð 1911 sem hafði verið falinn múraður inni í útihúsi á Fjóni um áratugi. Bíllinn var í ágætu ástandi og eftir að hafa verið yfirfarinn og komið í ökufært ástand skipaði hann lengstum heiðurssess í safninu. Þessi merki bíll, sem sést á titilmynd þessarar fréttar, er einn þeirra sem boðnir verða upp 12. ágúst.

Meðal annarra merkra gripa má nefna er mjög eftirsóttur Bugatti 57C Stelvio Drophead Coupé með Gangloff-yfirbyggingu, frá 1938. Þá er þar einn af 32 Bugatti bílum af gerð 40A sem byggðir voru. Bíllinn er frá 1931. Þá má nefna Hispano-Suiza HS26 Cabriolet-Victoria frá 1932, mjög sjaldgæfan Maybach Zeppelin DS8 Roadster frá 1938, Delahaye 135 M Cabriolet fra 1947 og Ferrari 250 GTE fra 1963. Auk þeirra sem hér hafa verið nefndir er fjöldi bíla frá fyrstu áratugum 20. aldar.

Eftir að J. O. Raben-Levetzau barón lést seldi fjölskylda hans bæði Aalholm setrið og bílasafnið árið 1995. Nýi eigandinn bar ekki gæfu til að reka safnið sómasamlega og neyddist til að loka því eftir umtalsvert vatnstjón í sýningarskálanum árið 2007. Hann lést svo árið eftir og safnið var lýst gjaldþrota og aldrei enduropnað. Þegar vatnstjónið mikla varð 2007 voru bílarnir fluttir í hinar og þessar geymslur og útihús vítt og breitt um góssið og óvíst er um hvernig ástand þeirra er nú.

En það eru ekki eingöngu gamlir bílar sem boðnir verða upp í Aalholm þann 12. ágúst. Meðal uppboðsgripa verður líka uppstillt leikfangalest af Märklin-gerð frá 1920 sem J. O. Raben-Levetzau barón fékk að gjöf frá föður sínum á 15 ára afmælisdeginum. Einnig er þarna gömul eftirlíking af flugvél þeirra Wright bræðra frá 1903 og DSB lestarvagn frá árinu 1890.

Ef einhvern skyldi langa til að líta við á uppboðið þann 12. ágúst þá er heimilisfangið Aalholm Parkvej 7-11 skammt frá Nysted á Lálandi. Aðgangseyrir er 185 DKR en 300 DKR ef maður hyffst taka þátt í uppboðinu. Uppboðsgripirnir verða til sýnis daginn fyrir uppboðið milli kl 10 og 18. Sjá nánar hér.