20 heimsfrumsýningar

http://www.fib.is/myndir/Audi_A7.jpg
Audi A7.
 
http://www.fib.is/myndir/Nissan_gtr.jpg  
Nissan GTR.
 
http://www.fib.is/myndir/RangeRover-evoque.jpg  
Range Rover Evouque.
 
http://www.fib.is/myndir/VW_Eos.jpg  
Volkswagen EOS.
 
http://www.fib.is/myndir/Saab_94X.jpg  
Saab 94X.
 

Hvorki meira né minna en 20 nýjar gerðir bíla verða frumsýndar á bílasýningu í Los Angeles sem hefst 17. nóvember nk. Meðal þeirra verða jepplingarnir Saab 9-4X og Nissan Murano blæjujepplingur.

 Mikilvægi bílasýningarinnar í Los Angeles þykir fara vaxandi fyrir bílaiðnaðinn í heiminum, ekki síst vegna þess að bílamarkaðurinn í Kaliforníu er einna minnst „þjóðernissinnaður“ Þetta sést ágætlega þegar ferðamaður virðir fyrir sér bílaumferðina í borgunum í þessu fjölmennasta ríki Bandaríkjanna. Stóru amerísku drekarnir eru nefnilega alls ekki ríkjandi í umferðarmyndinni. Algengustu bílarnir eru Evrópskir og japanskir að uppruna.

 
 
 
 
 
 
 
 

Nissan verður með þrjár heimsfrumsýningar í L.A: Í fyrsta lagi nýjan Quest fjölnotabíl eða Minivan eins og hann kallast, jepplinginn Murano sem opinn bíl með blæjutoppi og loks í þriðja lagi frumgerð fólksbíls eða stallbaks sem nefnist Ellure. Til viðbótar verður svo sýndur „andlitslyftur“ GT-R sportbíll.

 Kia sýnir fyrstu tvinntækni sína en hana mun gefa að líta í Kia Optima. Volkswagen mun afhjúpa nýja breytta kynslóð sportbílsins Eos og Chrysler verður með einar sex nýjungar sem til eru orðnar upp úr sameiningu Chrysler og Fiat, þar á meðal verður Chrysler 200 bæði sem stallbakur og sem opinn blæjubíll.

 Range Rover frumsýnir nýjan fimm- og þriggja dyra lúxusjeppa sem nefnist Evoque. Hyundai frumsýnir nýjan Elantra fólksbíl sem skrúfaður er saman í Bandaríkjunum. Þá frumsýnir Audi hinn nýja stóra A7 hlaðbak sem Audi-menn binda miklar vonir við í Bandaríkjunum.

BMW sýnir nýja kynslóð X3 jepplingsins og Porsche sýnir nýja kynslóð sportbílanna 911 Carrera GTS, og 911 Speedster. Lotus sýnir síðan sömu fimm hugmyndabílana og voru á Parísarsýningunni fyrr í haust. Þá gerast þau tíðindi nú að Fiat kemur á ný inn á Bandaríkjamarkað eftir 27 ára fjarveru og markar þann atburð með Bandaríkjafrumsýningu á Fiat 500.

 Eins og vænta mátti verða tvinnbílar og hreinir rafbílar talsvert áberandi á þessari sýningu. Mest áberandi þessara bíla verður hinn nýi Chevrolet Volt sem er að koma á markað í Bandaríkjunum.

Nissan Leaf, sem er hreinn rafbíll, er líka að koma á Bandaríkjamarkað á næstu dögum og vikum og sömu sögu er að segja um smábílinn Mitsubishi i-Miev. Þessir bílar báðir eru fyrstu hreinu fjöldaframleiddu rafbílarnir í bílasögunni og eins og áður hefur verið greint frá hér á FÍB fréttavefnum er ársframleiðslan á Nissan Leaf þegar uppseld fyrirfram í Bandaríkjunum. i-Miev verður markaðssettur í Bandaríkjunum á næstu dögum og vikum undir nýju nafni og með smávægilegum útlitsbreytingum. Mitsubishi hefur þó tilkynnt þegar að verð bílsins verði undir 30.000 dollurum frá framleiðanda. Verð til kaupenda kann síðan að verða enn lægra. Það fer eftir því hvort einstök ríki ákveði að veita kaupendum einhverskonar meðgjöf með hverjum bíl.  Ljóst er þó að þessi verðmiði er talsvert lægri en sá sem á þessum bíl er í Evrópu að Íslandi meðtöldu.