20 milljón Toyotur í Evrópu

Í síðustu viku höfðu 20 milljón Toyotabílar selst í Evrópu frá því að Toyotabílar komu inn á bílamarkaði Evrópu fyrir 47 árum. 20 milljónasta Toyotan seldist í Madrid á Spáni og og var afhent eigandanum við hátíðlega athöfn af forstjóra Toyota Europe; Miquel Fonseca. Bíllinn er dökkblá Toyota Verso með tveggja lítra túrbínudísilvél.

Þegar markaðssókn Toyota í Evrópu hófst árið 1963 gerðist það svosem ekki með neinum miklum látum. Tegundin fór fremur rólega af stað og það var eiginlega ekki fyrr en fyrir um áratug sem verulegur gangur komst í málin. Það sést á þeirri staðreynd að helmingur bílanna eða 10 milljón stykki hafa selst frá því í febrúarmánuði árið 2000.

Í dag starfa um það bil 94 þúsund manns hjá Toyota í Evrópu og Toyota er orðinn einn stærsti bílaframleiðandi veraldar. Níu Toyotabílaverksmiðjur eru í Evrópu.