3-5 Euro NCAP-stjörnur

Ódýri fjölskyldubíllinn Dacia Logan fékk þrjár stjörnur í nýlegu árekstursprófi Euro NCAP, því næst síðasta á árinu. Prófaðir voru 12 bílar og hinir glænýju Ford Mondeo og VW Passat reyndust meðal þeirra bestu.

Þótt hinn nýi Dacia Logan MCV hafi einungis náð þremur stjörnum þá er ekki þar með sagt að hann sé slæmur eða háskalegur bíll. Ástæðurnar eru fyrst og fremst breyttar reglur um stjörnugjöfina þar sem ýmis öryggisbúnaður eins og hindrunarskynjarar, sjálfvirk hemlun, kant- og miðlínulesarar, o.fl. eru forsendur fimmtu stjörnunnar og jafnvel þeirrar fjórðu líka. Allt er hins vegar gert til að hafa Dacia bílinn sem einfaldastan og léttastan og einmitt þessi einfaldleiki útilokar hann frá fimmtu stjörnunni þótt hann í sjálfu sér komi ekkert afleitlega út úr sjálfu árekstursprófinu.

Nýjasta kynslóð Opel Corsa hlaut fjórar stjörnur en náði ekki þeirri fimmtu í hús. Ástæðan er einmitt áður nefndur öryggisbúnaður sem er forsenda fimmtu stjörnunnar. Opel Corsa hefur verið mjög vinsæll í Evrópu. Hann hefur þótt traustur og öruggur í rekstri með lága bilanatíðni. Þótt hann hafi ekki náð fimmtu stjörnunni er hinn nýi Corsa engu að síður öruggur og traustur smábíll.

Fimm stjörnu bílarnir í þessari prófunarlotu eru Kia Sorento, Subaru Outback, Land Rover Discovery Sport, Porsche Macan, Lexus NX,  VW Passat og Ford Mondeo. Á meðfylgjandi mynd má sjá frammistöðu hvers bíls um sig:

http://fib.is/myndir/Areksturspr.jpg