32 ára tímabili bílasögunnar lýkur

Þann 15. sept. sl. kl. 12.30 að staðartíma lauk í Ontario í Kanada 32 ára tímabili í bílasögunni þegar lokið var við að byggja síðasta Ford Crown Victoria bílinn í St. Thomas samsetningarverksmiðjunni. Þessi stóri, þungi og rammgerði vinnuhestur lögreglu, leigubílstjóra og annarra atvinnubílstjóra hefur runnið sitt skeið á enda.

Crown Victoria var alla tíð byggður á gamaldags og sumir segja góðan máta. Það fór þannig fram í grófum dráttum að burðarvirkið var öflug og þung stigalaga stálgrind. Við hana aftan- og neðanverða var festur heill afturöxull  sem lengstum fjaðraði á tveimur blaðfjöðrum og síðar gormum. Stór V8 mótor og sjálfskipting var skrúfaður í framanverða grindina, síðan kom hjóla- og stýrisbúnaðurinn í heilu lagi og var skrúfaður fastur undir grindina framanverða og loks kom yfirbygging sem skrúfuð var ofan á burðargrindina og þar með var fætt eitt stykki Ford Crown Victoria, einfaldur og sterkur vinnuþjarkur sem margir munu efalaust sakna.

Síðustu þrjú árin var Crown Victoria einvörðungu byggð til að uppfylla pantanir frá bandarískum lögregluembættum, leigubílstjórum og leigubílaútgerðaraðilum. Bíllinn var nefnilega tekinn út af almennum markaði árið 2008.

Gerðarheitið Crown Victoria kom fyrst fram árið 1955. Crown Victoria í núverandi mynd kom svo fram árið 1979 og hefur undirvagninn að mestu verið sá sami allar götur síðan og er þar með langlífasti undirvagn í bandarískri bílasögu.  Tvisvar  á þessum 32 árum hafa verið gerðar breytingar á yfirbyggingu, sú síðari árið 1992. Síðan þá hafa breytingar einungis verið smávægilegar útlitsbreytingar.

Ford Crown Victoria Police Interceptor hefur alla tíð verið sérstaklega byggður sem lögreglubíll og sérstyrktur og frágenginn á ýmsa vegu til að þola sitt af hverju. Bandarískir lögreglumenn hafa margir tekið miklu ástfóstri við bílinn og sagt er að fjöldi lögregluembætta víðs vegar um Bandaríkin hafi undanfarin á „hamstrað“ Crown Victoria bíla til að eiga fyrningar af þeim til næstu ára.