3.314,9 km á lítranum

Franska liðið Microjoule fór með sigur af hólmi í sparaksturskeppninni Shell Eco-marathon sem fram fór í Rotterdam í síðustu viku. Keppnin var Evrópukeppni milli liða háskólastúdenta sem byggt hafa farartækin og hannað frá grunni með það fyrir augum að komast sem allra lengst á hverri orkueiningu. Árangur sigurfarartækis Frakkanna jafngildir því að bíllinn komist 3.314,9 kílómetra á einum lítra af bensíni sem er vegalengdin frá Lissabon í Portúgal til Varsjár í Póllandi.

Farartækin í keppninni ganga fyrir ýmiskonar eldsneyti eins og bensíni, dísilolíu, spíra eða etanóli, rafmagni og vetni. Síðan er orkunýting reiknuð út samkvæmt sérstökum formúlum og niðurstaðan birt sem ígildi bensínlítra pr. ekna kílómetra.

Þau þrjú dönsku lið sem þátt tóku í keppninni gekk í það heila tekið ágætlega en þó misvel. Liðið Roadrunners frá Danmarks Tekniske Höjskole (DTU) stefndi að sigri auk þess að bæta fyrra heimsmet sitt í flokki bíla sem ganga fyrir lífrænu endurnýjanlegu eldsneyti. Það tókst ekki þótt liðið sigraði í sínum keppnisflokki. Miklar og flóknar bilanir og vandamál hrjáðu bílinn fyrir upphaf keppni sem að lokum tókst að rekja til þess að efnafræðileg samsetning hollenska etanólsins sem knúði bílinn í keppninni reyndist önnur en þess sem sett var á bílinn í Danmörku.