4 látnir í umferðarslysum

Frá því að markviss skráning umferðarslysa hófst árið 1966 hafa ekki færri látist á einu ári heldur en nú. Enn er að vísu eftir rúm vika af árinu en það sem af er því, hafa fjórir látist í þremur banaslysum á Íslandi – tvær konur og tveir karlar.

Ágúst Mogensen rannsóknastjóri umferðarslysa segir í samtali við Fréttablaðið í morgun að þetta megi m.a. rekja til þess að á höfuðborgarsvæðinu og út frá því, þar sem flestar framanákeyrslur hafi átt sér stað, hafi mikið verið lagt í það undanfarin ár að aðgreina akstursstefnur. Við það hafi framanákeyrslum farið verulega fækkandi. Ennfremur hafi slysum þar sem ungir ökumenn eiga hlut að máli fækkað og umferðarhraði lækkað.

Þegar banaslysatölur síðustu tíu ára eru skoðaðar sést að dauðsföll í umferðinni hafa að meðaltali verið 16 á ári. Besta árið í þessu tilliti, fyrir utan árið í ár, var árið 2010 en þá létust átta manns. Versta árið var hins vegar árið 2006 en þá fórust 31. Á undangengnu tíu ára tímabili hafa 141 farist í umferðarslysum. Það jafngildir fullskipaðri millilandaflugvél af algengri stærð.

Látnir í umferðarslysum sl. áratug:

2005   19
2006   31
2007   15
2008   12
2009   17
2010     8
2011   12
2012    9
2013   14
2014    4