4 nýir bílar bætast í úrvalshópinn

Euro NCAP hefur nú árekstursprófað fjóra nýja bíla sem allir hljóta fimm stjörnur. Bílarnir eru Jeep Cherokee, Peugeot 2008, Suzuki SX4 S-Cross og Mercedes Bens CLA.

http://www.fib.is/myndir/JeepCherokee.jpg
http://www.fib.is/myndir/SuzukiSX4.jpg
http://www.fib.is/myndir/Benz-CLA.jpg
http://www.fib.is/myndir/Peugeot2008.jpg

Jeep Cherokee (minni bíll en Grand Cherokee) reyndist vera fimm stjörnu bíll og er þetta í annað skipti sem bíll frá Jeep nær þeim árangri hjá Euro NCAP. (Hinn var Jeep Compass árgerð 2012). Alls hlaut Jeep Ccherokee 33 stig og þar af hlaut hann 92 prósent þeirra stiga sem veitt eru fyrir vernd fullorðinna.

Jepplingurinn Suzuki SX4 S-Cross hlaut jafn mörg heildarstig og Jeep eða 33 og sömuleiðis hlaut hann 92 prósent stiga sem gefin eru fyrir vernd fullorðinna.

Mercedes CLA er byggður á sömu grunnplötu og nýju A og B Benzarnir. Heildarstig hans urðu 32 og hann hlaut 92 prósent þeirra stiga sesm gefin eru fyrir vernd fullorðinna.

Aðeins síður gekk hjá Peugeot 2008 en hann hlaut 32 stig samtals sem er nóg ti að skila fimmtu stjörnunni í hús. Fyrir vernd fullorðinna hlaut hann 88% þeirra stiga sem gefin eru fyrir vernd fullorðinna.

Nú stendur yfir ný árekstrarprófunarlota. Úrslit hennar verða tilkynnt í lok nóvembermánaðar nk. En næstkomandi þriðjudag, þann 29. Október verður greint frá úrslitum í sérstakri prófun Euro NCAP á öryggisbúnaði eins og sjálfvirkri neyðarhemlun sem grípur inn í aksturinn ef ökumaðurinn bregst.