4 sjónvarpsauglýsingar Jaguar bannaðar í Bretlandi

Sýningar á fjórum nýjum sjónvarpsauglýsingum fyrir nýjan Jaguar bíl hafa verið bannaðar í Bretlandi. Að mati stofnunar þeirra sem eftirlit hefur með auglýsingum hvetja þessar auglýsingastuttmyndir til ólöglegs, óábyrgs og hættulegs aksturslag. Í þeim er bílunum umræddu ekið hratt eftir fjallvegi í Sviss undir hraðri taktfastri bakgrunnstónlist og ítrekað er verið að taka framúr með því að aka yfir heila og óbrotna miðlínu. Daily Mail greinir frá þessu.

Í texta sem þulur les í myndunum er mikið gert úr því að Jagúar bílar séu skapaðir til þess að ökumönnum finnist þeir vera lifandi, enda þótt að aksturslagið sé slíkt að sá sem færi að stunda það daglega yrði trúlega ekki lengi með fullu lífi og heilsu. Þeim sem eftirlit hafa veð auglýsingum var greinilega nóg boðið og ákváðu að banna alfarið birtingu allra fjögurra auglýsingamyndbandanna. Talsmenn Jaguar hafa mótmælt úrskurðinum og segja m.a. að myndatökurnar hafa farið fram á lokuðum vegi í Sviss. Engin hætta hafi verið meðan þær fóru fram og einungis sé verið að sýna hversu bíllinn sé öruggur í akstri. Auglýsingaeftirlitið bendir á móti á það að myndirnar sýni hraðakstur við aðstæður þar sem hann á alls ekki heima í. Þær sýni aksturhætti sem séu óafsakanlegir og ólöglegir í Bretlandi og að þær þar með hvetji til slíks aksturslags.