40 ár frá FÍB rallinu

Á sunnudaginn, hvítasunnudag. verða nákvæmlega 40 ár frá því að fyrsta rallkeppnin sem var haldin á Íslandi fór fram. FÍB stóð fyrir keppninni og fór hún fram samkvæmt alþjóðlegum reglum hins alþjóðlega bílaíþróttasambands; FIA. Keppnin vakti mjög mikla athygli og greindu fjölmiðlar mjög ítarlega frá henni og flestu sem henni tengdist.

http://fib.is/myndir/Rallfrett.jpg

Ómar Ragnarsson tók þátt í keppninni með Jón bróður sinn sem leiðsöguökumann, á Fiat 127 árgerð 1974. Hann segir í samtali við FÍB-fréttir að sér sé þessi keppni mjög minnisstæð. Hún varð loks að veruleika eftir margra ára baráttu við yfirvöld og skriffinna þeirra sem voru bara á móti akstursíþróttum. Þeir hefðu loks látið undan með þeim skilyrðum að aldrei yrði ekið yfir lögbundinn hámarkshraða sem þá var 70 km á klst.

Í þeim rallviðburðum sem á eftir komu næstu mörg árin stóðu skriffinnar yfirvalda fast á þessari 70 km reglu en lokst tók að slakna á henni smám saman, fyrst þannig að hún varð að 70 km meðalhraða en að lokum lagðist hún af gagnvart akstri inni á harðlokuðum sérleiðum. Það gerðist þó ekki fyrr en  hátt í áraatug síðar. Ómar segiri að vegna 70 km reglunnar hefðu skipuleggjendur rallkeppni lengi neyðst til að leita uppi nógu erfiðar sérleiðir sem voru svo slæmar yfirferðar að nánast útilokað væri að komast yfir 70 á þeim nokkurs staðar. Þá minnist Ómar þess að yfirvöld, ekki síst einstök sýslumannsembætti, beittu mjög lögreglu gegn rallkeppendum sem hraðamældi þá í tíma og ótíma og sat fyrir þeim og stöðvaði af minnsta tilefni.

Það var þannig í umhverfi fjandskapar yfirvalda gagnvart hverskonar keppnishaldi á bílum sem fyrsta rallkeppnin fór fram. Af þeim ástæðum var leitast eindregið við að stilla hraðanum í (óhóflegt?) hóf. „Keppnin var því klukkurall. Hún fólst fyrst og fremst í því að halda alla tímaramma á sérleiðunum. Sá tímarammi réðist af 70 km hraðareglunni,,“ segir Ómar.  

Undirbúningur, skipulag og framkvæmd þessarar keppni var í höndum FÍB. Sjálf framkvæmdin var algjört frumkvöðlastarf, bæði verulega flókið og vinnuaflsfrekt. Mikill fjöldi fólks vann við undirbúning og framkvæmd keppninnar í sjálfboðastarfi og verulegur fjöldi FÍB manna komu að því verki. Sveinn Oddgeirsson þáverandi framkvæmdastjóri FÍB var sá sem samhæfði krafta þessa fórnfúsa fólks, dyggilega studdur af stjórn FÍB og þáverandi formanni félagsins, Eggerti Steinsen. Margir sjálfboðaliðar urðu síðarmeir bæði keppnismenn og framámenn á sviði aksturskeppni og umferðaröryggismála. Þeirra á meðal mætti nefna Ólaf Kr. Guðmundsson varaformann FÍB og um skeið dómara í Formúlunni.

Erling Andersen bifvélavirki hafði um það leyti sem fyrsta rallkeppnin fór fram, verið einn öflugasti vegaþjónustumaður FÍB um árabil. Hann minnist fyrsta rallsins á Íslandi sem hápunktsins í félagsstarfi FÍB. „Ég var einn af þeim sem skipulögðu rallið ásamt Bjarna Jónssyni rafvirkja. Við skipulögðum sérstakt talstöðvanet til að stjórnendur og starfsfólk gætu haft samband þar sem þá fyrirfundust engir farsímar. Á hverri sérleið voru hlið sem keppendur þurftu að fara í gegn um og þar voru þeir tímamældir út og inn og niðurstöður jafnharðan tilkynntar keppnisstjórn,“ segir Erling Andersen við FÍB-fréttir. „Í hverju hliði þurfti að vera sérstakur bíll með talstöð svo samskipti milli starfsmanna og tímavarða væru sem skyldi og allar tímasetningar og tímatökur stæðust. Þetta var talsvert flókið og í rauninni hefði keppnin verið óframkvæmanleg án talstöðvanna. Skipulagsvinnan var verulega flókið verkefni og mig minnir að við höfum verið rúma viku að berjast í því dag og nótt að koma þessu heim og saman, fyrst að finna leiðirnar, tímasetja þær og skipuleggja keppnisaksturinn og öll samskiptin þannig að ekkert gæti farið úrskeiðis. Öll skilaboð þurftu að komast óbrengluð sína boðleið í hvelli, hversu löng sem hún annars var, segir Erling.

Nákvæmnisvinna – enginn ofsaakstur

Þessi fyrsta rallkeppni var vissulega mikill viðburður sem vakti gríðarlega mikla athygli í samfélaginu og hlaut mikla og góða fjölmiðlaumfjöllun. En í alþjóðlegu „rall-samhengi“ var hún að sönnu ekki stór. Keppnislengdin var ekki nema rúmir 154 kílómetrar og keppni hófst og endaði við Hótel Loftleiðir við Reykjavíkurflugvöll að viðstöddum miklum fjölda fólks. 54 keppnisbílar hófu keppni. Tveggja manna áhöfn var í hverjum bíl þannig að keppendur voru 108. Það var Halldór E. Sigurðsson þáverandi samgönguráðherra sem ræsti fyrsta bílinn kl. 13.31. Aðeins ein kvenáhöfn tók þátt í keppninni. Það voru ökumaðurinn Guðrún Runólfsdóttir og Ingibjörg Jónsdóttir sem óku Toyota Corolla árgerð 1973.

Sigurvegari keppninngar, Halldór Jónsson frá Akureyri sagði í blaðaviðtali eftir þessa fyrstu rallkeppni á Íslandi samkvæmt alþjóðlegur reglum FIA, að fyrir sig hefði hún verið nákvæmnisvinna, en enginn ofsaakstur. Aðstoðarmaður Halldórs var Úlfar Hauksson, einnig Akureyringur, en báðir voru þeir viðskiptafræðinemar þá. Bíll þeirra var Fiat 128 Rally árg. 1974. Nr. 2 varð Halldór Sigurþórsson og Karl Rosenkjær á Peugeot 404 1963. Nr 3 varð Karl H. Sveinsson og Jón G. Viggóson á Fiat 125.

Keppt var í tveimur bílaflokkum; fólksbíla- og jeppaflokki. Í jeppaflokki sigruðu Hallgrímur Marinósson og Baldur Hlöðversson á Ford Bronco 1968. Nr 2 urðu Vilmar Þ. Kristjánsson og Sigurður I. Ólafsson, einnig á Ford Bronco en frá 1974. Þriðju urðu Gunnar Pétursson og Sigurður Ingi Ólafsson á Jeepster 1967

Óskar Ólason yfirlögreglumaður í Reykjavík var hreint ekki óánægður með keppnina því að henni lokinni sagði hann við dagblaðið Vísi:  „Keppnin var mjög vel skipulögð og fór vel fram. Það urðu þrír minni háttar árekstrar, en svona keppni er ekkert hættuspil.“

http://fib.is/myndir/HalldorE.jpg http://fib.is/myndir/Winners.jpg
Halldór E. Sigurðsson sam-
gönguráðherra ræsir fyrsta
bílinn
Guðmundur G. Þórarinsson tv.
afhendir sigurverðlaunin þeim
Halldóri Jónssyni (lengst th.) og
Úlfari Haukssyni..
http://fib.is/myndir/Konurnar.jpg http://fib.is/myndir/Peugeot.jpg
Einu kven-þátttakendurnir, þær
Guðrún Runólfsdóttir (í miðið)
og Ingibjörg Jónsdóttir.
Keppnisbílarnir voru allir óbreyttir
og af ýmsum gerðum og stærðum.
http://fib.is/myndir/Bronco.jpg http://fib.is/myndir/Wagoneer.jpg
Hallgrímur Marinósson og
Baldur Hlöðversson sigruðu
í jeppaflokki á Ford Bronco
árgerð 1968.
Jeep Wagoneer var vel þekktur
bíll á Íslandi 1975.