400 samnýtingar-rafbílar til Kaupmannahafnar

 Frá 3. september bjóðast íbúum Kaupmannahafnar frjáls afnot af 400 nýjum fjögurra manna BMW i3 rafbílum. Bílaflotinn verður í rekstri og umsjá samgöngufyrirtækis sem heitir Arriva og rekur strætisvagna og neðanjarðarlestakerfi á Kaupmannahafnarsvæðinu. Viðskiptavinirnir finna næsta lausa bíl með appi í snjallsímanum. Bíllinn er síðan opnaður með símanum og svo læst að notkun lokinni. Ennfremur er greitt fyrir afnotin með símanum, eða með svokölluðu ferðakorti sem er rafrænt inneignarkort sem veitir einnig aðgang að strætisvögnum og lestum borgarinnar.  

Leiguverðið er 3,95 DKR á mínútuna, en verður þó aldrei hærra en 190 DKR á klukkustundina, sem er um 3.800 ísl. kr. Ekki þarf að skila bíl á sama stað og hann er tekinn heldur má skila honum á hvaða heimastæði bílanna sem er innan Kaupmannahafnar, Frederiksbergs, Tårnby og við Hvidovre sjúkrahúsið og DTU – tækniháskólann í Lyngby. H

Þessi nýjung nefnist DriveNow og að baki henni stendur BMW bílaframleiðandinn í Þýskalandi. DriveNow fyrirfinnst þegar allvíða, m.a. í Berlin, Hamborg, München, London, Vínarborg og San Francisco. Til að geta leigt BMW i3 rafbílana þarf fyrst að skrá sig á heimasíðunni www.drive-now.dk eða á skrifstofu DriveNow í miðborg Kaupmannahafnar.

Dagblaðið Politiken hefur tekið saman spurningar til forráðamanna DriveNow yfir skilmála og hvað má og hvað má ekki í sambandi við það að leigja bíl. Hér eru spurningarnar og svörin:

Hvað gerist ef bílnum er skilað utan þjónustusvæðis  DriveNow?
-Ef notkun er hætt utanþjónustusvæðis þarf að sækja bílinn og leigutakinn að greiða það sem það kostar.
 
Hvad á leigutaki að gera af slys eða óhapp verður?
-Það sama og í eigin bíl en hafa auk þess samband við þjónustumiðstöð DriveNow sem opin er allan sólarhringinn.
 
Hvað með tryggingar og sjálfsábyrgð?
-Tryggingar eru innifaldar í leiguverðinu. Sjálfsábyrgð er 5 þús. DKR. (100 þús. ísl. kr.) Hægt er að helminga sjálfsábyrgðina með því að greiða 200 ísl. kr. aukalega fyrir hvert leigutímabil.
 
Er hætta á að bíllinn verði rafmagnslaus?
-Talið er að meðal akstursvegalengd leigutaka verði 7,5-10 kílómetrar. Það þýðir að ólíklegt er að strauminn þrjóti. En ef það gerist kemur þjónustuaðili á staðinn og hleður bílinn.
Mega aðrir en skráður leigutaki aka bílnum? 
-Nei. Við verðum að vita að hvort sá sem ekur hafi ökuréttindi. Ef tveir vilja skipast á að aka, verða báðir að vera skráðir sem leigutakar.
 
Hvað gerist ef maður gleymir að skrá sig út úr bílnum þegar hann er yfirgefinn?
-Ef leigutaki yfirgefur bílinn án þess að skrá sig út, fær hann sms sem aðvara hann um að hafa yfirgefið bílinn án þess að skrá sig út og enda leigutímann formlega. Hann mun fá slík sms uns hann skráir sig út á réttan hátt. Á skjá í bílnum verða að finna nákvæmar leiðbeiningar um þetta.
 
Verður hætta á því að leigutaki verði rukkaður um skemmdir á bíl sem aðrir hafa valdið?
-Þegar leigutaki sest inn í bílinn þarf hann að slá inn PIN-númer og svara síðan hversu hreinn bíllinn er og hvort nýjar skemmdir séu á honum.
 
Verður hægt að aftengja loftpúðann fyrir framsætið og koma þar síðan fyrir barnastól?
-Nei. Það er ekki hægt. En hægt verður að setja tvo barnastóla í aftursætið.
 
Er pláss fyrir barnavagn eða –kerru í bílunum?
-Já.
 
Eru festingar fyrir reiðhjól aftan á bílunum?
-Nei. Við höfum skoðað það mál en ekki fundið nægilega góða lausn enn sem komið er.
Má taka gæludýr með í bílnum?
-Já, en auðvitað ber að skila bílnum hreinum og þokkalegum.
 
Gildir danska skráningin hjá DriveNow í öðrum löndum?
-Já.