42% Svía geta hugsað sér að skipta í rafbíl

Sænski bílasöluvefurinn KVD hefur látið kanna viðhorf sænskra neytenda og áhuga þeirra á því að eignast og nota rafbíla. 1160 manns svöruðu könnuninni og niðurstaðan er sú að 42 prósent aðspurðra gátu vel hugsað sér það að næsti bíll þeirra yrði rafbíll.

Miðað við eldri samskonar könnun eru Svíar nú jákvæðari en áður gagnvart því að eiga rafbíl. Könnunin nú leiddi í ljós að jákvæðir karlar í garð rafbílanna voru fleiri en konur. Konur voru fjölmennari í hópi 37% þeirra aðspurðu sem sögðust ekki myndu endurnýja yfir í rafmagnsbíl. Rafbíll  gæti ekki uppfyllt akstursþarfir þeirra vegna þess að drægið væri ekki nægilegt og aðgangur að hleðslustöðvum of gisið og rafbílarnir of dýrir.

Markaðsstjóri KVD bílasöluvefjarins segir að könnunin staðfesti verulegan og vaxandi áhuga fyrir rafbílum og eftirspurn eftir þeim nýjum og nýlegum aukist jafnt og þétt. En helstu þröskuldarnir í vegi rafbíla sé þó enn hið takmarkaða drægi þeirra miðað við hefðbundna bíla, hærra verð þeirra og gisnir innviðir og þar með takmarkaðir endurhleðslumöguleikar.