5 dyra VW Up

Nýi VW smábíllinn Up sem kominn er á bílasölur Volkswagens á meginlandi Evrópu hefur fengið ágæta dóma bílablaðamanna og þykir bæði sparneytinn og góður í akstri. Fyrstu mánuðina sem hann hefur verið á markaði hefur hann einungis verið í boði sem þriggja dyra, en síðar á árinu er fimm dyra útgáfa væntanleg. Fimm dyra útgáfan mun væntanlega þykja að mörgu leyti hentugri t.d. fyrir barnafjölskyldur.

Fimm dyra útgáfan verður lítilsháttar dýrari en þriggja dyra útgáfan. Í Þýskalandi verður verðmunurinn á þremur og fimm dyrum 475 evrur. Tæknilega séð er að öðru leyti lítill munur á þriggja- og fimm dyra útgáfunum. Sömu tvær vélargerðirnar verða í boði í báðum. Báðar eru þær þriggja strokka. Sú aflminni er 60 hö. en sú aflmeiri er 75 hö. VW Up er einnig framleiddur og seldur sem Skoda Citigo og Seat Mii.