5000 rafmagns-Kangoo

Nú er um ár liðið frá því að almenn sala á rafknúna sendibílnum Renault Kangoo ZE hófst í Frakklandi. Ekki verður annað sagt en að vel hafi gengið því að nú hafa alls selst fimm þúsund slíkir bílar í Evrópu. Í Evrópu eru Renault lang stærsti söluaðili rafbíla með meir en 28 prósenta markaðshlutdeild. Kangoo ZE á þar stærstan hlut að máli.

Kangoo ZE er lang mest seldi rafbíllinn í Evrópu, hvort heldur það er í heimalandinu Frakklandi eða öðrum löndum og staða rafmagns-Renaultbíla styrkist stöðugt. Frönsk stjórnvöld hafa nú gengið frá pöntun í 15 þúsund rafbíla til viðbótar til nota í opinberri þjónustu. Í Svíþjóð er Renault Kangoo ZE mest seldi rafbíllinn þótt vissulega sé eintakafjöldinn ekki hár því 205 Kangoo ZE hafa verið nýskráðir í landinu frá áramótum til og með septembermánuði.

Fjölmiðlafulltrúi Renault Nordic segir í samtali við Motor Magasinet í Svíþjóð að í landinu fyrirfinnist stór og ónýttur markaður fyrir litla rafknúna rafbíla sem eigi eftir að opnast. Hvarvetna í borgum og byggðum landsins séu slíkir bensín- og dísilknúnir bílar þúsundum saman sem ekið er innan við 100 km daglega. Rafknúnir sambærilegir bílar geti auðveldlega leyst þá af hólmi enda séu þeir ekki síðri kostur heldur að flestu leyti betri.

– Við reiknum með að selja alls um það bil 300 Renault Kangoo ZE á þessu ári og á næsta ári kynnnum við nýjan rafknúinn fólksbíl í Svíþjóð. Við reiknum með því að selja um 500 rafbíla á næsta ári og að salan  á þeim aukist ár frá ári héðan í frá, - segir fjölmiðlafulltrúinn sem heitir Karin Karlsson.