59 fornbílar fóru fyrir 3,8 milljarða

Hið nýlega uppgötvaða fornbílasafn franska vörubílakóngsins Roger Baillon var boðið upp sl. laugardag á uppboði sem fram fór á fornbílasýningunni Retromobile í París. Alls voru boðnir þar upp 59 fornbílar í mjög misjafnlega góðu ástandi en flestir þó talsvert merkilegir í bílasögulegu tilliti. Tæpir 3,8 milljarðar ísl. kr fegnust fyrir bílana.

Roger Baillon byrjaði að safna bílum um miðja síðustu öld og  hugðist opna bílasafn með áherslu á vandaða og dýra bíla sem á einhvern hátt voru sérstakir og/eða hefðu áður verið í eigu þekkts fólks. Lang hæsta verðið fékkst einmitt fyrir einn slíkan, en það var nokkuð óvenjulegur Ferrari 250 GT SWB California Spider. Þessi bíll hafði verið um skeið í eigu kvikmyndaleikarans Alain Delon. (sjá mynd). Þessi bíll, sem var í ágætu ástandi, var sleginn kaupanda á rúmlega 2,1 milljarð króna.

Hátt verð fékkst ennfremur fyrir ýmsa sjaldgæfa og merka bíla sem þó voru sumir hverjir í slæmu ástandi eftir áratuga langa dvöl úti undir misvel vatnsheldum skúraþökum. Þetta voru bílar eins og Hispano-Suiza H-B Cabriolet Million-Guiet frá 1925, Talbot-Lago T26 Grand Sport SWB Saoutchik frá 1949, Talbot-Lago T26 Record Cabriolet Saoutchik frá 1948 og Talbot-Lago T26 Record Fastback Saoutchik.